Kaupþing hf. hefur stefnt Vestmannaeyjabæ en frá þessu er greint í Eyjafréttum . Í stefnunni fer þrotabú bankans fram á að rift verði greiðslu Kaupþings hf. til Vetmannaeyjabæjar frá 8. september 2008, að fjárhæð kr. 1.013.229.250, og hinsvegar er þess krafist að Vestmannaeyjabær greiði Kaupþingi hf. þessa sömu fjárhæð til baka með stoð lög um gjaldþrotaskipti.

Samkvæmt frétt Eyjafrétt telur bæjarráð stefnuna ekki eiga við rök að styðjast og hefur falið bæjarstjóra að gæta hagsmuna Vestmannaeyjabæjar í málinu.

Í viðtali við Elliða Vignisson, bæjarstjóra Vestmannaeyjabæjar, kemur fram að um er að ræða fjármuni í eigu Vestmannaeyjabæjar sem voru í fjárstýringu hjá Kaupþing. „Þetta mál er náttúrulega risavaxið. Þetta snýst um rúmlega 1000 milljónir. Þegar komin er stefna hljótum við að gera sjóklárt og búa okkur undir dómstólaleiðina," segir Elliði um málið en hann greinir einnig frá því að bærinn hafi ekki tapað neinum fjármunum á bankahruninu.