Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um heimild til útboðs vegna nýrrar Vestmannaeyjaferju.  Lögin heimila Vegagerðinni fyrir hönd ríkissjóðs að láta fara fram útboð vegna nýrrar ferju.

Samkvæmt frumvarpinu á Vegagerðin að tefla fram tveimur valkostum í útboðinu. Annars vegar að gerður verði þjónustusamningur um smíði og rekstur skips til allt að tólf ára. Hins vegar að samið verði um smíði skips fyrir allt að 4,8 milljarða króna.

Í athugasemdum við frumvarpið segir að ófremdarástand hafi verið í samgöngumálum milli lands og eyja. Í viðtali við Morgunblaðið í dag segist Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, mjög ánægður með frumvarpið en varar þó við því að rekstur ferjunnar sé boðinn út til of langs tíma.