Í viðtali í Viðskiptablaðinu í vikunni segir Halldór Benjamín að heppni hafi ráðið því að launahækkanir síðustu ára hafi ekki keyrt upp verðbólgu og að kostnaðarhlutfall fyrirtækja sé mjög hátt og lítið svigrúm til launahækkana. Háir vextir séu gjaldið sem Íslendingar greiða fyrir óhóflegar launahækkanir.

Halldór Benjamín tók við framkvæmdastjórastarfinu í ársbyrjun. SA voru undanfarnar vikur á hringferð um landið. Fundirnir eru opnir en þeir voru fyrst og fremst sóttir af atvinnurekendum. Tónninn var víðast hvar sá sami. „Það sem maður heyrir er að það er búið að ganga vel að undanförnu og þetta er enginn grátkór. Atvinnurekendur hafa góða sögu að segja – þeir hafa getað staðist miklar launahækkanir. En þess er farið að sjást stað í rekstri fyrirtækjanna. Ég heyri frá allri flórunni, frá stærstu útgerðarmönnunum til prentarans í plássinu: Veturinn verður tími hagræðingar. Það sem við höfum séð er að launakostnaðurinn heldur áfram að aukast og atvinnulífið þurfi að hagræða. Núna eru fyrirtæki komin að þessum ytri mörkum,“ segir Halldór Benjamín.

Verður að vera svigrúm til launahækkana

„Kjarninn í málflutningi Samtaka atvinnulífsins snýst um forsendur launahækkana. Það verður að vera svigrúm í fyrirtækjunum til að hækka laun. Sé litið til baka hefur svigrúm stundum verið nokkurt en á öðrum tíma minna. Fulltrúar launafólks þurfa því að aðlaga kröfur sínar að aðstæðum hverju sinni. Ef launahækkanir eru innistæðulausar gerist ávallt það sama; verðbólgan eyðir kjarabótunum. Þessi atburðarás hefur verið síendurtekin undanfarin 75 ár.“

Páll Kr. Pálsson, eigandi og framkvæmdastjóri VARMA ullarvörur, hafði orð á því í Viðskiptablaðinu í síðustu viku að lending hagkerfisins gæti orðið harðari en spáð hefur verið.

„Ég get tekið undir með Páli að það gerist ef farið verður í innstæðulausar launahækkanir ofan í þetta allt saman. Það mun hafa sömu afleiðingar og það hefur alltaf haft. Gengi krónunnar gefur eftir, verðbólgan vex og kaupmáttur rýrnar. Gengi krónunnar er ventill í hagkerfinu sem hleypir út lofti og hann virkar alltaf. Þú platar ekki ventilinn. Við getum rifist um hvenær eigi að breyta um nálgun á vinnumarkaðnum en ég tel að nú sé besti tíminn til að gera það. Launahækkanir hafa verið mjög miklar undanfarin ár án þess að verðbólgan hafi étið þær upp og niðurstaðan er tuga prósenta kaupmáttaraukning. Kaupmáttaraukning síðustu 2-3 ára er á borð við það sem búast má við á heilum áratug í venjulegu árferði.“

Fjórar skýringar á stöðunni

Fjórar skýringar eru á þessari jákvæðu kaupmáttarþróun. „Gengi krónunnar styrktist um tugi prósenta. Það gerist ekki aftur á næstu árum. Við vorum heppin. Á sama tíma hafa viðskiptakjör verið mjög góð, útflutningsverð hefur hækkað og innflutningsverð lækkað. Við getum ekki treyst á það til framtíðar. Þá voru tollar og vörugjöld afnumin sem hélt aftur af verðhækkunum og samkeppnisumhverfið á Íslandi er á sama tíma að breytast mjög mikið. Í fjórða lagi fjölgaði ferðamönnum hér á landi gríðarlega með 600 milljarða króna innflæði gjaldeyris á ári til frambúðar. Tímabili 40% árlegs vaxtar ferðaþjónustu er lokið. Án þessara fjögurra þátta hefðu launahækkanir farið beint út í verðlagið,“ segir Halldór Benjamín.

Hann bendir á að sumir notuðu tækifærið til að benda á að greiningardeildir bankanna og Samtök atvinnulífsins hafi á sínum tíma sagt að hækkun launa myndi skila sér í hærra verðlagi, sem ekki varð. „Einhver gæti sagt að það væri ekkert að marka okkur og því full ástæða til að hækka laun aftur jafnmikið. Svarið mitt við því er afdráttarlaust nei. Mælikvarð- inn þar er raungengið.

Ef launakostnaður á Íslandi heldur áfram að hækka rýrnar samkeppnisstaða fyrirtækja í alþjóðlegri samkeppni og fjöldi fyrirtækja missir rekstrargrundvöll. Þá komum við aftur að þessum ventli, ef laun halda áfram að hækka þá mun gengi krónunnar gefa eftir, verðbólga vaxa og kaupmáttur rýrna. Get ég sagt þetta með vissu? Já, það get ég. Ef litið er til hagsögu Íslands eftir síðari heimsstyrjöldina hefur reglulega orðið allt að 50% gengisfall á u.þ.b. tíu ára fresti. Þótt aðstæðurnar hafi verið misjafnar hefur ventillinn reglulega losað þrýstinginn þar til nýju jafnvægi hefur verið náð. Það verður að breyta hugsunarhætti allra þeirra sem starfa í þessu kjarasamningaumhverfi.

Á síðustu 27 árum hafa Íslendingar hækkað laun um að meðaltali 6,6% á ári. Það hefur skilað 1,9% kaupmáttaraukningu á ári. Mismunurinn er verðbólga og meðalstýrivextir á þessu tímabili voru um 8%. Það er gjaldið sem við greiðum,“ segir Halldór Benjamín.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .