Lækkun stýrivaxta um 0,25% í síðustu viku hefur bætt vaxtakjör á lánamarkaði. Breytilegir vextir á óverðtryggðum lánum hafa lækkað sem og fastir vextir á nýjum lánum.

Til að mynda ákvað Arion banki að lækka óverðtryggða vexti íbúðarlána um 0,25%. Breytilegir óverðtryggðir vextir voru 6,35% og hafa lækkað í 6,10% samkvæmt nýrri vaxtatöflu. Óverðtryggðir vextir fastir til þriggja ára voru 6,40% og lækka í 6,15% og til fimm ára lækka þeir úr 6,45% í 6,20%. Hjá Íslandsbanka og Landsbankanum lækka vextir á óverðtryggðum íbúðarlánum í 6,25%.

Þá hafa lífeyrissjóðir einnig lækkað vexti sína á íbúðarlánum. Til dæmis hafa Gildi – lífeyrissjóður og Birta – lífeyrissjóður, sem bæði veita sjóðfélögum lán á breytilegum vöxtum, lækkað vexti. Gildi hefur lækkað vexti á óverðtryggðum grunnlánum úr 6,15% í 6,05% og Birta hefur lækkað þá úr 6,1% í 5,85%.