Rick Rieder, yfirmaður skuldabréfafjárfestinga hjá BlackRock sem er stærsta eignastýringarfyrirtæki heims, segir það engu máli skipta hver muni taka við af Janet Yellen sem bankastjóri Seðlabanka Bandaríkjanna þegar skipunartími hennar rennur út í febrúar næstkomandi. Segir Rieder að öllum líkindum verði stýrivextir í Bandaríkjunum áfram lágir burt séð frá því hver tekur við.

„Hver sá sem verður skipaður, þá er það svo að ef framfylgja á efnahagsstefnu stjórnvalda þá verður að halda stýrivöxtum lágum til langs tíma," sagði Rieder í viðtali við CNBC í dag. Í síðustu viku greindi fréttasíðan Politico frá því að Gary Cohn, efnahagsráðgjafi Donald Trump, væri líklegastur til að taka við af Yellen þegar skipunartími hennar rennur út.

Áður en Cohn gekk til liðs við ríkisstjórn Trump var hann næstráðandi hjá Goldman Sachs á eftir forstjóranum Lloyd Blankfein. Saga Cohn er nokkuð merkileg, hann er lesblindur og er einungis með bachelor gráðu í viðskiptafræði sem þykir nokkuð óvenjulegt á Wall Street. Hefur hann sjálfur sagt að hafi verið skelfilegur nemandi. Ef af ráðningu Cohn verður yrði hann fyrsti seðlabankastjóri Bandaríkjanna sem er ekki hagfræðimenntaður.

Segir Rieder að ráðning Cohn yrði nokkuð eðlileg. „Í raun tel ég að ástæða þess að seðlabankinn hefur í hyggju minnka skuldabréfaeign sína sé sú að bankinn sé að undirbúa sig undir skipun nýs bankastjóra."

Í viðtalinu sagði Rieder einnig að hlutabréfamarkaðir myndu halda áfram að hækka í verði þar sem að þeir vextir sem fjárfestar noti til að núvirða fjárfestingar muni áfram vera lágir. „Það mun gerast þrátt fyrir að seðlabankar Bandaríkjanna og Evrópu muni sýna meira aðhald í peningastefnu sinni.