Vinstrigræn mun eyða 30 milljónum króna til sinnar kosningabaráttu að þessu sinni, sem er aðeins minna en fyrir ári þegar hún kostaði 34,5 milljónir. Samfylkingin fer hins vegar úr 40 milljónum niður í 13 milljóna króna kostnað við sína kosningabaráttu, en eins og Viðskiptablaðið fjallaði um nýlega miðað við heimtur að hvert atkvæði hafi í síðustu kosningabaráttu kostað Samfylkinguna 3.900 krónur.

Hrannar Arnarson kosningastjóri Samfylkingarinnar segir þó að mögulega bætist við upphæðina í einstökum kjördæmum að því er Morgunblaðið greinir frá. „Ég fæ ekki upplýsingar um [það] fyrr en ársreikningar verða gerðir fyrir Samfylkinguna í heild,“ segir Hrannar sem viðurkennir að þrettán milljónir séu ekki há upphæð í samhengi. „Ég veit það hljómar mjög lágt.“

Samfylkingin með einn mann í fullu starfi

Hrannar segir að stærsti hluti upphæðarinnar, eða um átta milljónir fari í gerð kynningarefnis og birtingu auglýsinga.

„[A]ðeins einn starfsmaður hefur verið ráðinn til Samfylkingarinnar í fullt starf vegna kosningabaráttunnar á landsvísu,“ segir Hrannar en um 2,5 milljónir af kosningafé Samfylkingarinnar fara til félaganna í kjördæmunum sex sem munu að auki reyna að afla fjár sjálfstætt.

Ráða kosningastjóra í öllum kjördæmum

Björg Eva Erlendsdóttir framkvæmdastjóri Vinstri grænna segir flokkinn einnig greiða 418 þúsund króna til hvers kjördæmis, en um tveir þriðju útgjaldanna fara í auglýsingar og birtingar hjá fjölmiðlum. „Öll kjördæmin hafa ráðið sér kosningastjóra í nokkrar vikur, sem vinna með föstu starfsfólki í kosningastjórnarteymi,“ segir Björg Eva.

„[Ö]nnur þjónusta sem við kaupum er af birtingahúsi og við kaupum vinnu við hönnun, samfélagsmiðla, heimasíðugerð og fjáröflun.“ Auk þessa sé inni í tölunni kostnaður við landsfund flokksins fyrr í mánuðinum.