Vinstri hreyfingin – grænt framboð, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa nú samþykkt sáttmála um fyrirhugað ríkisstjórnarsamstarf flokkanna þriggja.

Flokkarnir hafa boðað til blaðamannafundar á morgun klukkan 10. Þar verður stjórnarsáttmáli flokkanna kynntur og hann undirritaður af formönnum.

Á fundi flokksráðs Sjálfstæðisflokksins samþykkti flokkurinn ríkisstjórnarsamstarfið upp úr kl. 18:30 með öllum greiddum atkvæðum. Flokksráð Vinstri grænna samþykkti sáttmálann á fundi ráðsins um kl. 21:30. Þá samþykkti Framsóknarflokkurinn samhljóða sáttmálann á miðstjórnarfundi rétt í þessu.