Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra er opin fyrir upptöku sykurskatts á nýju, en Katrín Jakobsdóttir samflokksmaður hennar í VG og forsætisráðherra lagði upptöku hans til við gerð síðustu fjármálaáætlunar að því fram kemur í Fréttablaðinu.

Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá er stefnt að endurskoðun fjármálaáætlunar næstu fimm ára samhliða gerð nýs fjárlagafrumvarps, en hún var samþykkt fyrir rúmu ári síðan og átti þá að gild til ársins 2022.

Samstarfsflokkar Vinstri grænna í ríkisstjórn, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur lögðu hins vegar sykurskattinn niður 1. janúar 2015, en hann hafði verið lagður á 21 mánuði fyrr 1. mars 2013.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um sendu Samtök verslunar og þjónustu inn kvörtun til ESA vegna sykurskattsins en samtökin sögðu hann fela í sér mismunun milli innlendra og erlendra framleiðenda .

Samtök skattgreiðenda í Bretlandi hafa bent á að slíkur skattur leggist þyngst á fátæka íbúa , en þar var jafnframt töluverð mismunun í skattheimtunni. „Þetta er eitt af því sem við eigum að hafa á dagskrá þegar við ræðum hvernig við beitum hvötum í ríkisfjármálunum,“ segir Svandís.

„Við viljum, og það kemur fram í stjórnarsáttmálanum, almennt leggja meiri áherslu á forvarnir og lýðheilsu. Það hefur auðvitað verið sú tilhneiging að setja mesta áherslu á sjúkrahúsþjónustuna sjálfa, en minna á forvarnarþáttinn. Góð heilsa snýst um þrennt; forvarnir og lýðheilsu, sjúkrahúsið og heilsugæsluna og svo eftirfylgni og endurhæfingu.“