Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, var haldinn á Selfossi nú um helgina. Katrín Jak­obs­dótt­ir var sjálf­kjör­inn formaður hreyf­ing­ar­inn­ar og Björn Valur Gíslason hafði betur gegn Sóleyju Björk Stefánsdóttur í varaformannsslagnum.

Landsfundurinn ályktaði að setja ætti viðskiptabann á ísraelskar vörur og að ríkisstjórnin ætti að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael. Fundurinn skoraði einnig á borgarfulltrúa Vinstri grænna að leggja að nýju fram tillögu um að Reykjavikurborg sniðgangi vörur frá Ísrael á meðan hernám Palestínu varir.

Landsfundur Vinstri grænna ályktaði einnig gegn hvalveiðum við Íslandsstrendur en í ályktuninni segir:

„Við veiðarnar er beitt ómannúðlegum veiðiaðferðum til að viðhalda áhugamáli örfárra útgerðarmanna. Háum upphæðum af opinberu fé hefur verið kastað á glæ til að styrkja þessa áhugamenn um hvalveiðar.“

Landsfundurinn lagðist gegn hugmyndum um oliuvinnslu á Drekasvæðinu og einnig var lagt til að stofnað verði opinbert leigu- og kaupleigufélag til að koma til móts við fólk á „klikkuðum húsnæðismarkaði sem hinn frjálsi markaður býður upp á.“

Allar ályktanir landsfundar Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs má sjá hér .