Kanada og Evrópusambandið segjast áfram vera vongóð um að hægt sé að ná samkomulagi um undirskrift fríverslunarsamnings milli landanna sem búinn er að vera í burðarliðnum í sjö ár.

Átti að skrifa undir samninginn, sem gengur undir skammstöfuninni CETA, á fimmtudaginn komandi en eftir að sjálfstjórnarhéraðið Vallonía í Belgíu stöðvaði undirskriftina er hann kominn í uppnám.

Vilja aukna vernd

Kröfur Valloníu, sem er frönskumælandi hluti Belgíu, eru að í samningunum verði sterkari ákvæði um vinnumarkaðs-, umhverfis- og neytendastaðla.

Sjálfstjórnarhéraðið í kringum höfuðborgina Brussel hefur stutt kröfur Valloníu, en Flanders, flæmskumælandi hluti landsins styður samninginn.

Vill sjálfstæði Flanders

Sagði Geert Bourgeois, leiðtogi ríkisstjórnar Flanders, að stöðvun samningsins væri „alger skömm.“

„Við erum aðhlátursefni heimsins,“ sagði hann, en hann leiðir miðhægrflokkinn NVA, sem stendur fyrir nýja flæmska bandalagið, en flokkurinn vill sjálfstæði héraðsins.

Leiðtogi Valloníu, Paul Magnette sagði hins vegar að „Við muum aldrei ákveða neitt undir hótunum eða pressu.“ Hann leiðir flokk sósíalista í héraðinu.