Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins birtir á facebook síðu sinni mynd af heilsíðuauglýsingu frá Market Watch sem Viðskiptablaðið fjallaði um í morgun undir fyrirsögninni „Við gefumst aldrei upp!“

Vísar hann þar í umfjöllun síðustu daga, sem blaðið hefur einnig tekið fyrir , um að erlendir vogunarsjóðir hugsi sér gott til glóðarinnar þegar og ef ný stjórn taki við á Íslandi.

Gengst við því að berjast fyrir hagsmunum Íslands

„Nú bæta menn í með heilsíðu [...] og gera því skóna að hér sitji spillt stjórnvöld. Það var og. Svarið er að hér situr við völd ríkisstjórn sem varði íslenska hagsmuni þegar þessir sömu sjóðir hugðust gæða sér á eignum landsmanna eftir hrun bankanna,“ segir Sigurður Ingi.

„Framsóknarflokkurinn gaf aldrei eftir í baráttunni fyrir íslenskum hagsmunum; svo því sé haldið til haga. Og við höfðum betur. Í auglýsingunni [...] er spurt hverjir berjist fyrir hagsmunum Íslands; ég skal gangast við því.“

Lilja Alfreðsdóttir tekur í sama streng

Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins fjallar einnig um málið á sinni síðu.

„Þessi aðför að íslenskum hagsmunum er ólíðandi og hvað gengur þessum aðilum til?,“ segir Lilja, en Sigurður Ingi segir að lokum:

„Þessi grímulausa hagsmunagæsla sendir vægast sagt óþægileg skilaboð nú þegar Ísland er að ná sér á strik efnahagslega. Spurningin sem hlýtur að vakna er þessi; af hverju binda vogunarsjóðir betri von við vinstri stjórn en þá sem nú situr?“