Dregið hefur úr fjölgun launþega og atvinnulausum hefur fjölgað hér á landi. Fjölgun launþega mældist 2,1% í ágúst síðastliðnum samanborið við 4,4% á sama tíma í fyrra og 5% í ágúst 2016. Þróunin í viðskiptahagkerfinu, sem er hagkerfið án hins opinbera, hefur verið talsvert meira afgerandi en í ágúst mældist einungis 1,2% fjölgun launþega. Það er minnsti vöxtur í fjölda launþega sem mælst hefur síðan í apríl árið 2011 eða síðan hagkerfið byrjaði að taka við sér í efnahagsuppsveiflu síðastliðinna ára. Þetta kemur fram í nýrri greiningu Samtaka iðnaðarins en þar segir að ofangreindar upplýsingar séu merki þess að farið sé að hægja á hagvexti.

Hægist verulega á ferðaþjónustunni

Samkvæmt greiningunni sköpuðu tvær greinar 63% allra nýrra starfa sem urðu til í hagkerfinu á árunum 2015-2017, en þessar greinar voru byggingariðnaðurinn og ferðaþjónustan. Hægst hafi á vextinum í þessum tveimur greinum og þá sérstaklega í ferðaþjónustunni en samdráttur mældist í fjölda starfandi í ferðaþjónustu í ágúst síðastliðnum í fyrsta sinn síðan í upphafi árs 2011. Nýleg könnun Gallup á stöðu vinnumarkaðar bendi svo til þess að starfsfólki í þessari grein muni halda áfram að fækka á næstunni. Endurspeglist þetta í því að hægt hefur verulega á vexti gjaldeyristekna greinarinnar en tekjur af erlendum ferðamönnum hafa verið sá hluti gjaldeyristekna sem vaxið hefur hvað hraðast á síðustu árum.

Samhliða hafi dregið úr vexti gjaldeyristekna þjóðarbúsins sem hefur verið ein af ástæðum minni hagvaxtar. Strax á árinu 2017 hafi farið að bera á hægari vexti eftir mjög hraðan hagvöxt á árinu 2016 eða 7,4%. Mældist hagvöxturinn í fyrra 4%. Virðist sem að á seinni helmingi þessa árs hafi dregið hratt úr hagvextinum og er reiknað með að hann verði hægur á næsta ári eða undir 2% sem væri þá minnsti hagvöxtur sem verið hefur hér á landi síðan efnahagsuppsveiflan sem nú virðist vera að líða undir lok hófst. Samhliða þessari þróun er reiknað með því að enn dragi úr fjölgun starfa og að atvinnuleysi fari vaxandi.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .