Viðar Örn Kjartansson, landsliðsframherji í fótbolta, hefur loks fengið alvöru tækifæri með íslenska landsliðinu og hefur sýnt og sannað að þar er frábær sóknarmaður á ferð. Viðar Örn hefur ekki einungis gert það gott á vellinum og raðað inn mörkum fyrir lið sín heldur hefur hann einnig gert mjög góða launasamninga við þau.

Gylfi Þór Sigurðsson hækkar í 560 milljónir í árslaun hjá Swansea. Hann gerði nýjan fjögurra ára samning við Swansea eftir EM í sumar.

Frá Kína til Ísrael

Það vakti talsverða athygli í lok ágúst þegar Viðar Örn skrifaði undir fjögurra ára samning við ísraelska félagið Maccabi Tel Aviv sem er það stærsta þar í landi.

Viðar Örn raðaði inn mörkum fyrir Malmö í Svíþjóð eins og hann gerði fyrir Vålerenga í Noregi. Hann skoraði 14 mörk í 20 leikjum fyrir Malmö. Í millitíðinni hafði hann leikið með kínverska liðinu Jiangsu Sainty og var einnig á skotskónum þar. Hann hefur því verið á talsverðum rúnti á milli félaga síðustu þrjú árin en hefur þénað afbragsðvel á þeim félagaskiptum.

Hann hefur verið á mjög góðum launum hjá öllum þessum félögum og þá sérstaklega í Kína og nú í Ísrael. Jiangsu Sainty keypti hann á um 460 milljónir króna frá Vålerenga. Malmö mun hafa borgað Viðari Erni um 120 milljónir króna í bónus fyrir að ganga til liðs við félagið frá Jiangsu Sainty í janúar á þessu ári. Þá upphæð fékk hann beint til sín.

Nánar er fjallað um laun íslenskra íþróttamanna í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast tímaritið hér .