„Það er gaman að geta sagt frá því að Landsbankinn hefur nýlokið við einkadreifingarsamning við alþjóðlega eignastýringafyrirtækið AXA Investment Managers um að bankinn annist kynningu og sölu á sjóðum fyrirtækisins á Íslandi.“

Þetta segir Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri Markaða hjá Landsbankanum, í samtali við Viðskiptablaðið. Tilkynningin kemur rúmum mánuði eftir að frumvarp til laga um breytingu á lögum um gjaldeyrismál, nr. 87/1992, var lagt fyrir Alþingi þann 16. ágúst. Landsbankinn er fjórði innlendi aðilinn til að tilkynna um samstarfssamning við alþjóðlegt eignastýringarfyrirtæki frá þeim tíma, en Kvika, Fossar Markaðir og Virðing hf. hafa undirritað sambærilega samstarfssamninga.

Landsbankinn veitir alhliða þjónustu í tengslum við erlend verðbréfaviðskipti og býður einnig upp á vörsluþjónustu á erlendum verðbréfum og sjóðum. Bankinn er einn stærsti eignastýringaraðilinn á innlendum markaði á samstæðugrunni, með rétt undir 956,3 milljarða króna í eignastýringu og vörslu. Meðtaldar í þeirri tölu eru eignir í stýringu hjá Landsbréfum hf., dótturfélagi Landsbankans, and Landsbréf rekur einnig sjóði sem fjárfesta erlendis.

Eitt stærsta sjóðastýringarfyrirtæki Evrópu

AXA IM er eitt stærsta sjóðastýringarfyrirtæki Evrópu og sýslar með um 679 milljarða evra eða jafnvirði 87,4 þúsund milljarða króna í sjóðum fyrir breiðan hóp viðskiptavina í 65 löndum. Sjóðir fyrirtækisins eru um 1.700 og bjóða upp á fjölbreytt úrval alþjóðlegra eignaflokka, bæði hefðbundin hlutabréf og skuldabréf, en einnig sérhæfðar fjárfestingar. Fyrirtækið var stofnað árið 1994 og er eignastýringararmur franska fjármálafyrirtækisins AXA, sem stofnað var árið 1817.

Samstarfssamningur Landsbankans við AXA IM gerir viðskiptavinum eignastýringar Landsbankans kleift að nýta allt vöruframboð í sjóðum fyrirtækisins, og er samningurinn liður í þeirri stefnu bankans að bjóða upp á fjölbreytt úrval erlendra fjárfestingakosta fyrir viðskiptavini, einkum við losun fjármagnshafta. „Við leggjum á það áherslu við okkar viðskiptavini að vera tilbúnir þegar breytingin tekur gildi. Samkvæmt fjármálafræðum á fjárfestir sem á vel dreift, innlent eignasafn möguleika á hærri ávöxtun fyrir gefna áhættu með því að bæta vi erlendum fjárfestingum í safnið sitt. Það er einnig mikilvægt út frá áhættudreifingu að dreifa eignasafninu vel“ segir Hrefna Ösp. Fjármagnshöft á hinn bóginn skerða rétt fjármagnseigenda til frjálsrar ráðstöfunar á sjálfsaflafé sínu og halda því í gíslingu í umhverfi með hærri líkum á kerfisbundnu eignatjóni.

Umboð innan hafta

Að sögn Hrefnu Aspar er Landsbankinn vel í stakk búinn til að sinna þjónustu sem snýr að fjárfestingum erlendis við losun hafta. Bankinn hefur haft umboð fyrir mörg helstu eignastýringarfyriræki heims undanfarin ár, svo sem AllianceBernstein, BlackRock, T. Rowe Price, UBS og Carnegie, og hefur bankinn lagt sig fram við að viðhalda tengslum við erlend sjóðastýringarfyrirtæki sem og aðila í verðbréfamiðlun innan fjármagnshafta. Eins og með aðra samstarfssamninga íslenskra fjármálafyrirtækja og erlendra sjóðastýringarfyrirtækja innan hafta hafa þessir samningar þó einungis gagnast þeim sem áttu verðbréf erlendis fyrir hrun. Að meðaltali hafa um 10% af eignum í stýringu hjá bankanum verið í erlendum bréfum eftir hrun. Við gildistöku frumvarpsins munu samstarfssamningarnir - gamlir og nýir - og önnur þjónusta sem snýr að erlendum mörkuðum nýtast mun fleiri innlendum aðilum en áður, og mun eignasamsetningin að meðaltali hliðrast meira í átt að erlendum bréfum. Hrefna Ösp segist þó ekki búast við miklu útflæði fjármagns við losun hafta til að byrja með. Ávöxtunarmöguleikar á Íslandi séu góðir borið saman við helstu markaði erlendis, en að engu að síður sé mikilvægt að undirbúningur sé til staðar þegar tækifærin gefast.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .