Viðræður um kaup Icelandair á Wow air hófust á laugardaginn að frumkvæði Skúla Mogensen, stofnanda Wow air, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Skúli sendi bréf til starfsmanna Wow air fyrir skömmu þar sem fram kom að viðræðurnar hafi staðið yfir síðustu tvo sólarhringa og að Wow verði dótturfélag Icelandair Group.

Úlfar Steindórsson, stjórnarformaður Icelandair sagði í viðtali við Viðskiptablaðið í byrjun september að sameining við Wow air væri áhugaverður kostur en hún gengi líklega ekki upp miðað við núverandi samkeppnislög. „Miðað við núverandi samkeppnislög í landinu er það, held ég, ekki hægt. Það væri um margt áhugavert að minnsta kosti að skoða hvað það þýddi ef þessi tvö félög gætu sameinast. En samkeppnislögin eru bara með þeim hætti að það myndi ekki ganga. Samt er stærsti hluti af starfsemi beggja fyrirtækja á markaðnum frá Evrópu til Ameríku og Ameríku til Evrópu. Samtals erum við með um 3% hlutdeild svo ekki erum við með ráðandi hlutdeild þar, heldur er það umferðin til og frá Íslandi sem veldur því að það gengur ekki upp," sagði Úlfar í september.

Kaupin á Wow air eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins auk þess að boðað verður til hluthafafundar hjá Icelandair á næstu dögum þar sem tekin verður endanleg ákvörðun um kaupin. Hluthafafund skal boða með þriggja vikna fyrirvara hið skemmsta.

Flugfélögin eru samanlagt með um 80% markaðshlutdeild af flugferðum á Keflavíkurflugvelli. Í tilkynningu frá Icelandair í morgun er bent á að flugfélögin hafi um 3,8% markaðshlutdeild á flugi yfir Norður-Atlantshafið. Þá bjóða um 30 flugfélög upp á millilandaflug til og frá Keflavíkurflugvelli. Skilgreining Samkeppniseftirlitsins á hvaða markaði félögin starfa mun því að líkindum ráða miklu um afstöðu eftirlitsins til kaupanna.