Noregur og Kína munu taka upp á ný viðræður um fríverslunarsamning milli landanna og hefjast þær innan 5 mánaða. Samkomulag þessa efnis var undirritað fyrir helgina í opinberri heimsókn Ernu Solberg  forsætisráðherra Noregs til Kína. Frá þessu er meðal annars greint í frétt Reuters , en Fiskifréttir fjalla einnig um málið.

Sem kunnugt er kólnaði samband landanna mikið eftir að þekktum kínverskum andófsmanni voru veitt friðarverðlaun Nóbels fyrir allmörgum árum. Kínverjar svöruðu með því að beita Norðmenn tæknilegum viðskiptaþvingunum, m.a. í innflutningi sjávarafurða, en nú virðist vera komin þíða í samskipti landanna.

Að sögn Ernu Solberg, forsætisráðherra Noregs, er mikilvægt að finna sameiginleg hagsmunamál ríkjanna tveggja, nú þegar samband Kína og Noregs falli aftur í eðlilegan farveg.

Auk Solberg forsætisráðherra er Monica Mæland atvinnuvegaráðherra með í Kínaferðinni og henni fylgir gríðarstór sendinefnd úr norsku atvinnulífi, alls 240 fulltrúar frá 120 fyrirtækjum.

Kína er mikilvægasta markaðsland Noregs í Asíu. Vöruviðskipti landanna árið 2016 námu 90 milljörðum norskra króna eða jafnvirði 1.178 milljarða íslenskra króna . Þrír fjórðu af því var innfluttar vörur til Noregs, aðallega síma- og tölvuvörur, en Norðmenn selja Kínverjum aðallega efnavörur, tæki í skip og sjávarafurðir.

Rúmlega 100 fyrirtæki undir norskri stjórn eru starfrækt í Kína og starfsmenn þeirra eru um 10.000 talsins. Velta þeirra er jafnvirði um 90 milljarða íslenskra króna.