Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, og ríkisstjórn hans hyggst hefja viðræður um breytingar á NAFTA samkomulaginu (Fríverslunarsamningur Norður-Ameríku) á miðvikudaginn . Trump hefur löngum lýst samningnum sem þeim versta sem undirritaður hefur verið í Bandarískri sögu og var það eitt að af kosningaloforðum hans að endursemja um aðkomu landsins að samkomulaginu.

Sem fyrr segir munu samningaviður hefjast næstkomandi miðvikudag, en þá mun sendinefnd frá Bandaríkjunum setjast að samningaborðinu í Washington með fulltrúum frá Mexíkó og Kanada.

Trump er þeirrar skoðunar að NAFTA hafi leitt til samdráttar í bandarísku atvinnulífi sem hafi valdið því að verksmiðjum hafi verið lokað og milljónir misstu störf sín. Óháðar rannsóknir hafa hinsvegar sýnt fram á hið gagnstæða og segja fjölmargir sérfræðingar að NAFTA hafi ekki verið ástæðan fyrir samdrættinum.

Samkvæmt Viðskiptaráði Bandaríkjanna eru um 14 milljón störf í landinu háð verslun við Kanada og Mexíkó.