Fylgi stjórnmálaflokkana hefur þróast og breyst frá síðasta Þjóðarpúlsi Gallup. Helsta breytingin frá síðustu mælingum hefur verið á fylgi Vinstri grænna, auk þess sem Viðreisn hefur tapað fylgi. Þetta kemur fram í samantekt á vef Gallup.

Ef gengið yrði til kosninga hér og nú, myndi VG líklegast hljóta um 23% atkvæða, sem er um þremur prósentustigum meira en fyrir mánuði. Fylgi VG hefur því ekki verið jafn hátt frá því í maí 2010. Viðreisn hefur aftur á móti tapað tveimur prósentustigum og mælist með 5% fylgi.

Samkvæmt Gallup er ekki tölfræðilega marktæk breyting á fylgi annarra flokka milli mánaða, þar sem fylgi þeirra hefur breyst um 0,1 til 1,7 prósentustig.

Slétt 28% segjast þó styðja Sjálfstæðisflokkinn, rösklega 13% Pírata, tæplega 11% Framsóknarflokkinn, ríflega 7% Samfylkinguna, sama hlutfall Bjarta framtíð og rúmlega 3% Flokk fólksins. Rúmlega tvö prósent nefna aðra flokka og þar af 1,2% Dögun.

44% þeirra sem tóku afstöðu sögðust einnig styðja ríkisstjórnina.