1,6 milljarða króna afgangur var á viðskiptum við útlönd á öðrum ársfjórðungi þessa árs, samkvæmt tilkynnningu á vef seðlabankans . Á sama ársfjórðungi í fyrra nam afgangurinn 11,9 milljörðum, og féll því um 86% milli ára.

Viðskiptaafgangur fyrri árshelmings nam tæpum 5 milljörðum, en tæpum 20 í fyrra, og er því um fjórðungur þess sem hann var þá.

50 milljarða króna halli var á vöruskiptum, en þjónustujöfnuður var jákvæður um 55 milljarða. Halli var á rekstrarframlögum um 3,6 milljarða, og 100 milljóna króna afgangur af frumþáttatekjum.

Erlendar eignir þjóðarbúsins eru samkvæmt bráðabirgðayfirliti um greiðslujöfnuð 3.250 milljarðar í lok ársfjórðungsins, en skuldir 2.989 milljarðar. Hrein staða er því sem fyrr segir jákvæð um 261 milljarð, eða tæp 10% af vergri landsframleiðslu, og batnaði um rúman fjórðung af því á ársfjórðungnum. Þar vega langtum þyngst gengis- og verðbreytingar, sem höfðu jákvæð áhrif upp á 59 milljarða, og skýrast af 3,1% lækkun á gengi krónunnar gagnvart helstu gjaldmiðlum, auk 1% verðhækkana á erlendum verðbréfamörkuðum.