Viðskiptaafgangur á fyrri helmingi yfirstandandi árs var tæplega helmingi minni en á sama tímabili í fyrra. Greiningardeildir stóru viðskiptabankanna þriggja, Arion banka , Íslandsbanka , og Landsbanka , hafa gert tölur Seðlabanka Íslands að umfjöllunarefni sínu.

Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í gær gaf Seðlabankinn út tölur um viðskiptajöfnuð í gær. Á öðrum ársfjórðungi var 16,3 milljarða króna afgangur á viðskiptajöfnuði við útlönd. Þá var halli á vöruskiptajöfnuði 45,8 milljarðar króna og var afgangur af þjónustujöfnuði 60,5 milljarðar króna. Viðskiptaafgangurinn á fyrsta ársfjórðungi var 8,2 milljarðar króna sem þýðir að afgangurinn á fyrri helmingi ársins var 24,5 milljarðar króna eða um 22,1 milljörðum króna minni en afgangur á fyrri árshelmingi 2016.

Ferðaþjónustan skýrir afgang

Hallinn á vöruskiptum jókst á milli ára, en hins vegar var þjónustujöfnuður jákvæður um 101,2 milljarða króna á fyrri árshelmingi, sem er 8 milljörðum króna meiri afgangur en á sama tíma í fyrra. Tekjur af ferðaþjónustu jukust um 28,4 milljarða króna á milli ára að því er kemur fram í Hagsjá Landsbankans.

Í greiningu Arion banka segir að erfitt hafi verið að sjá áhrif krónunnar á ferðaþjónustuna, þar sem að tekjurnar hafi aukist um 8%. „Áhrif krónunnar sjást þó annarsstaðar, t.d. í breyttu ferðamynstri, styttri dvalartíma og minni neyslu á hvern ferðamann í krónum talið. Engu að síður benda tölur um ferðaþjónustuútflutning til þess að neysla hvers erlends ferðamanns í erlendri mynt hafi aukist á fjórðungnum, sem er í takt við þróun undanfarna ára,“ segir í greiningu sérfræðinga Arion banka.