„Það er tímafrekt að finna nýja markaði og dýrkeypt að missa markaðsaðgang þegar búið er að koma honum á,“ segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, í aðsendri grein í Viðskiptablaðinu .

Hún segir ákvörðun Rússa um að banna innflutning á tilteknum matvælum hafa komið sér mjög illa fyrir íslenskan sjávarútveg. Hlutfallslega hafi hún komið harðar niður á íslenskum hagsmunum en hagsmunum annarra ríkja. Í síðasta mánuði framlengdu Rússar bannið og gildir það nú til loka ársins 2018.

„Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki höfðu komið ár sinni ágætlega fyrir borð í Rússlandi og það væri hentugt fyrir sjávarútveginn að vita hvort íslensk stjórnvöld ætli að gefa þessum mikilvægu, en að því er virðist gleymdu, hagsmunum gaum,“ segir Heiðrún Lind.