*

fimmtudagur, 25. apríl 2019
Innlent 22. desember 2017 10:35

Viðskiptaráð gagnrýnir kjararáð

Viðskiptaráð skorar á nýtt Alþingi að grípa tafarlaust til ráðstafana og draga til baka úrskurði kjararáðs.

Ritstjórn
Katrín Olga Jóhannsdóttir, formaður Viðskiptaráðs.
Haraldur Guðjónsson

Í lögum um kjararáð er kveðið á um að ráðið skuli í úrskurðum sínum taka tillit til þróunar kjaramála á vinnumarkaði. Nýlegar ákvarðarnir kjararáðs um launahækkanir biskups Íslands, forstjóra opinberra stofnana sem og launahækkanir þingmanna og ráðherra á síðasta ári eru hins vegar ekki í neinu samræmi við þróun á vinnumarkaði segir í ályktun Viðskiptaráðs. Að mati Viðskiptaráðs setja úrrskurðirnir setja vinnumarkaðinn í uppnám fyrir komandi kjaraviðræður með ósætti sem ógnar efnahagsstöðuleika landsins.

Viðskiptaráð Íslands skorar á nýtt Alþingi að endurskoða úrskurði Kjararáðs og leggja málið í sáttaferli. Að öðrum kosti sé erfitt fyrir aðila vinnumarkaðarins að halda áfram vegferð sinni um bætt vinnubrögð við kjarasamningagerð.

Grunnlaun biskups hafa hækkað um 53%

Með SALEK, rammasamkomulagi aðila vinnumarkaðarins, dags. 24. október 2015, var launastefna mótuð til ársloka 2018. Í samkomulaginu felst að samningsbundnar launabreytingar, að meðtöldum hækkunum framlaga launagreiðenda í lífeyrissjóði, skyldu að hámarki nema 32% á tímabilinu frá nóvember 2013 til ársloka 2018. Gildir það jafnt um kjarasamninga sem þá höfðu verið gerðir og þá sem koma til endurnýjunar frá undirritun samkomulagsins.

„Kjararáð hefði átt að taka mið af framangreindri og ríkjandi launastefnu í úrskurðum sínum. Með nýjum úrskurði kjararáðs hafa grunnlaun biskups hækkað um 53% frá árinu 2013 og 75% hækkun hefur orðið á þingfararkaupi frá sama ári. Til samanburðar hækkuðu laun á almennum vinnumarkaði um 28% frá nóvember 2013 til hausts 2016 og gætir þar mikilla hækkana lægstu launataxta á árinu 2015. Stjórnendur á almennum vinnumarkaði hækkuðu um 22% á umræddu tímabili,“ segir Viðskiptaráð.

Vegið meðaltal grunnlauna presta eftir kjarahækkun er 739 þúsund krónur, grunnlaun biskups 1.170 þúsund krónur og grunnlaun alþingismanna 1.101 þúsund. Meðalgrunnlaun stjórnenda á almennum markaði eru 886 þúsund krónur. Tekjuhóparnir eru því allir nokkuð sambærilegir og eðlilegt að þróun þeirra sé með sambærilegu móti. Í úrskurðum kjararáðs er hins vegar vísað til meðaltals launaþróunar allra hópa. Krónutöluhækkanir lægst launuðu hópanna hafa því umtalsverð áhrif á viðmið launahækkana embættismanna, þingmanna, presta og annarra hópa sem heyra undir kjararáð. Fyrir vikið hafi hátekjuhópar kjararáðs hækkað mun meira en sambærilegir hópar á almennum vinnumarkaði.

Ákvarðanir kjararáðs í andstæðu við stefnumörkun um stöðugleika

Ráðið segir að lífskjarabati síðustu ára á sér fá fordæmi. Kaupmáttur launa hafi aukist um rúm 25% á þremur árum. Sterkur hagvöxtur og hagfelldar ytri aðstæður hafi gert þessa þróun mögulega án neikvæðra áhrifa á verðlag. Til að unnt verði að varðveita þennan árangur þurfi launahækkanir næstu ára að þróast í samræmi við getu hagkerfisins til að standa undir þeim.

„Á undanförnum árum hafa aðilar vinnumarkaðarins lagt í mikla vinnu við endurskipulagningu á fyrirkomulagi kjarasamningagerðar. Grundvöllur þeirrar vinnu eru markmið um aukinn stöðugleika, lækkun vaxta og stöðugt verðlag. Þannig má bæta kjör heimilanna og styrkja rekstrargrundvöll íslenskra fyrirtækja með heildarhagsmuni að leiðarljósi. Nýlegar ákvarðanir kjararáðs eru í andstöðu við þessa stefnumörkun,“ segir ennfremur.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim