Viðskiptaráð Íslands heldur nú verkkeppni (e. case competition) í annað sinn. Verkkeppnin gengur þannig fyrir sig að 4-6 manna lið hafa eina helgi til þess að móta hugmynd er snýr að spurningunni „Hvernig lærir fólk framtíðarinnar?”.

Keppnin er haldin helgina 12. – 14. október og hefst kl. 12:00 á föstudeginum. Undir lok sunnudags munu liðin kynna hugmyndir sínar og tillögur að lausn fyrir dómnefnd og í kjölfarið er lokahóf með kvöldverði um kvöldið.

Ótal mörg tækifæri fylgja tæknivæðingunni og hinni svokölluðu 4. iðnbyltingu sem nú gengur yfir en áskoranir felast í því að nýta nýjar leiðir til að miðla upplýsingum, mennta einstaklinga og sinna störfum á fjölbreyttari hátt en áður. Liðin eiga að koma auga á eina slíka áskorun, eða fleiri, og setja fram mótaða tillögu að lausn á vandamálinu. Keppnin er ætluð hópum með fjölbreyttan bakgrunn og geta lausnirnar því verið eins ólíkar og þær eru margar. Liðin geta einblínt á það svið sem þau hafa þekkingu og áhuga á, hvort sem það er að endurhugsa íslenskt menntakerfi, bæta tiltekna aðferðafræði, spýta í lestrarfærni eða sjálfvirknivæða menntun. Eina krafan er að lið séu lausnamiðuð og frumleg í sinni nálgun.

Föstudaginn 12. október hlusta liðin á fyrirlestra þar sem verkefnið er útskýrt í frekari smáatriðum. Þá er liðunum til halds og trausts fjölbreyttur hópur leiðbeinenda úr atvinnulífinu, svokallaðir „mentorar“. Boðið er upp á morgunmat, hádegismat og kvöldmat alla daga og endar keppnin á veglegum kvöldverði fyrir keppendur.

Dómnefnd keppninnar skipa:

  • Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra
  • Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík
  • Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík
  • Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands
  • Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs Íslands

Þátttakendur sigurliðsins vinna 1.000.000 kr. til þess að þróa hugmynd sína frekar.