Á aðalfundi Viðskiptaráðs Íslands var rétt í þessu samþykkt að leiða í lög ráðsins ákvæði um kynjakvóta í stjórn. Framvegis verður því gerð krafa um að hlutfall hvors kyns í stjórn ráðsins sé ekki lægra en 40% segir á vef Viðskiptaráðs .

Með breytingunni vill Viðskiptaráð tryggja fjölbreytta samsetningu stjórnarinnar og sýna gott fordæmi í íslensku viðskiptalífi. Breytingin var samþykkt samhljóða.

Í nýkjörinni stjórn Viðskiptaráðs fyrir tímabilið 2018-2020 eru kynjahlutföll nánast jöfn, 47% konur og 53% karlar. Er það langhæsta hlutfall kvenna í stjórn Viðskiptaráðs frá stofnun ráðsins fyrir rúmum hundrað árum síðan.