Milljarðamæringurinn og fjárfestirinn George Soros segir að Bandaríkin verði að vingast almennilega við Kína, annars gæti fjandinn orðið laus. Þetta skrifar hann í nýrri grein í The New York Review of Books .

Soros segir að það sé virkilega mikilvægt fyrir báðar þjóðir að finna sameiginlegan grundvöll fyrir farsælu samstarfi. Takist það sé ávinningurinn gríðarlegur fyrir báða aðila.

„Bandarísk stjórnvöld hafa svo lítið að vinna og svo miklu að tapa með því að líta á samband sitt við Kína sem núll-summu leik,“ skrifar Soros og á þar við leik þar sem einn aðili geti ekki grætt án þess að hinn tapi.

„Samningsstyrkur Bandaríkjanna er lítill. Vissulega gætu þeir hægt á framþróun Kína, en það væri virkilega hættulegt.“

Kína og Rússland gegn Bandaríkjunum

Soros skrifar að ef forsetanum Xi Jinping mistakist að auka velsæld Kína með því að frelsisvæða markaðinn þar í landi, þá gæti hann reynt að skapa erjur við utanaðkomandi lönd til að sameina þjóðina og halda völdum. Gæti það jafnvel leitt til hernaðarsamstarfs á milli Kína og Rússlands.

„Í slíku felli, ef erjurnar breytast í stríð við bandamann Bandaríkjanna eins og Japan, þá eru það engar ýkjur að fullyrða að við yrðum á barmi þriðju heimsstyrjaldarinnar,“ skrifaði Soros.

„Það er óumflýjanlegt að Bandaríkin og Kína keppist við hvort annað, en það verður að haldast innan marka sem útiloka það að gripið verði til hernaðaraðgerða.“

Soros viðurkennir að ekki verði auðvelt fyrir Bandaríkin og Kína að mynda farsælt samstarf vegna þess hversu ólík löndin eru. Nefnir hann meðal annars að Bandaríkin leggi meiri áherslu á einstaklingsfrelsi en Kína og að Kína líkt og Rússland líti á sig sem fórnarlamb heimsvaldastefnu Bandaríkjanna.

Soros segir að Bandaríkin eigi ekki að vinna í því að byggja upp sterkt samstarf við nágrannaþjóðir Kína nema engin leið sé að ná samkomulagi við þá síðarnefndu. Gætu slíkar aðgerðir leitt til nýs kalds stríðs.