Tinna Hrafnsdóttir, Þórey Mjallhvít H. Ómarsdóttir, Dögg Mósesdóttir og Védís Hervör Árnadóttir hafa í sameiningu stofnað félagið Freyja Filmwork ehf. Tilgangur félagsins er framleiðsla kvikmyndaverkefna þar sem konur gegna lykilhlutverkum.

„Við erum fjórar konur úr ólíkum áttum sem ákváðum að taka höndum saman og stofna fyrirtæki til að halda utan um framleiðslu okkar eigin verkefna,“ segir Tinna, framkvæmdastjóri og einn eigenda Freyja Filmwork. „Við viljum bregðast við umræðu sem kallar á aukna virkni kvenna í öllum deildum kvikmyndageirans af alvöru og í verki, leggja okkar af mörkum í þeirri bar­ áttu að skapa umhverfi sem getur aukið möguleika kvenna í kvikmyndagerð og framleiðslu.“

Reyndist vel að blanda menningu og viðskiptum

Stofnendurnir fjórir eru allar listakonur, hver á sinn hátt. „Við ákváðum að samnýta reynslu okkar allra og stofna okkar eigið fyrirtæki. Það mun bæði halda utan um okkar eigin verkefni, og jafnvel í framtíðinni mun það halda utan um verkefni annarra,“ segir Tinna.

Tinna hefur talsverða reynslu af leiklistarbransanum. Hún hefur leikið bæði í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum en nýlega gerði hún sína fyrstu stuttmynd, „Helgu“ sem nú er í kynningu erlendis á vegum Kvikmyndamiðstöðvar. Í leikhúsi hefur hún starfað sem leikstjóri og leikkona og sett upp leiksýningar. Tinna útskrifaðist með MBA-gráðu í stjórnun frá Háskólanum í Reykjavík, en hún segir það hafa reynst sér vel að að blanda saman viðskiptum og menningarstarfsemi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .