Í október jukust viðskipti í kauphöll Íslands um 13% frá því í september, en í heildina námu hlutabréfaviðskiptin rétt rúmlega 55,4 milljörðum, eða að meðaltali 2.519 milljónum á dag að því er fram kemur í viðskiptayfirliti kauphallarinnar.

Hins vegar námu viðskiptin í október í fyrra 2.684 milljónum á dag, svo um er að ræða 6% minni viðskipti en fyrir ári síðan. Á mánuðinum hækkaði Úrvalsvísitalan um 2,3% og stóð hún í 1.690 stigum í lok mánaðarins.

Marel og Icelandair í mestu viðskiptum

Mest viðskipti voru með bréf Marel, eða fyrir tæpa 7,9 milljarða, og því næst með bréf Icelandair eða fyrir 6,8 milljarða. Síminn kom svo næstur með 5,8 milljarða, viðskipti með bréf N1 námu svo 4,7 milljörðum og með bréf Reita tæpum 3,8 milljörðum.

Heildarviðskipti með skuldabréf námu í mánuðinum 85,9 milljörðum króna, sem samsvarar um 3,9 milljarða veltu á dag. Er þetta 24% lækkun frá fyrri mánuði, og 27% lækkun frá sama tíma í fyrra þegar viðskiptin námu 5,3 milljörðum á dag. Námu viðskiptin með ríkisbréf 63,9 milljörðum, en 15 milljörðum fyrir bankabréf og 2,9 milljarða með íbúðabréf.