Svíi að nafni David Hedqvist sem vildi veita samlöndum sínum þá þjónustu að selja og kaupa Bitcoin í skiptum fyrir sænskar krónur hafði átt í deilum við sænska skattinn um hvort hann ætti að greiða virðisaukaskatt af viðskiptum sínum með rafgjaldmiðilinn. Málinu var að lokum áfrýjað til Evrópudómstólsins.

Dómur Evrópudómstólsins hljóðaði svo að Bitcoin væri gjaldmiðill og því væru viðskipti með hann ekki virðisaukaskattskyld. Þetta er sigur fyrir notendur Bitcoin, sem hafa frá upphafi barist fyrir því að gjaldmiðillinn væri álitinn raunverulegur og nothæfur.

Áhyggjur höfðu legið í loftinu varðandi úrskurðinn, en hefði dómstóllinn ákveðið að Bitcoin yrði að skattleggja sem vöru hefði gengi gjaldmiðilsins hækkað talsvert innan Evrópu.

Dómstóllinn hefði jafnvel getað úrskurðað að gjaldmiðillinn, óháð viðskiptum, væri skattskyldur, en það hefði gert mörgum fyrirtækjum lífið leitt með auknu magni reglugerða og útgjalda.