Heildarviðskipti í Kauphöllinni í ágúst námu 45.848 milljónum króna, sem gerir rétt tæplega 2,1 milljarð á dag en í mánuðinum lækkaði Úrvalsvísitalan um 6,6%. Heildarmarkaðsvirði bréfa skráðum í kauphöllinni nemur  1.032 milljörðum íslenskra króna, sem er lækkun frá því í júli þegar það nam 1080 milljörðum.

Þó umfang heildarviðskipta í kauphöllinni hafi hækkað 26% frá fyrri mánuði, en í júlímánuði námu viðskiptin með hlutabréfa 1.658 milljónum á dag, er um að ræða 8% minni viðskipti en á sama tíma fyrir ári. Í ágústmánuði árið 2016 námu viðskiptin 2.286 milljónum á dag.

Mest viðskipti með Marel

Ef horft er á viðskipti síðasta mánaðar eftir fyrirtækjum voru mestu viðskiptin með bréf Marel, eða fyrir tæpa 10 milljarða, Icelandair Group fyrir 6.859 milljónir, með bréf Reita á rétt tæpa 5 milljarða, N1 var í 4.280 milljónum og Síminn í rétt rúmlega 3 milljörðum.

Á Aðalmarkaði Kauphallarinnar var Arion banki með 21,9% hlutdeild í viðskiptum, sem er eilítið minna en þau 25,3% sem þeir hafa séð um á árinu, Landsbankinn er með 21,2% sem er viðbót miðað við árið í heild sem er 20,6% og Kvika banki er með 18,4% en á ársgrundvelli nema viðskipti bankans 14,2%.

Mikil aukning skuldabréfaviðskipta milli mánaða

Í júlímánuði námu heildarviðskiptin með skuldabréf 112,3 milljörðum sem samsvarar 5,1 milljarð veltu á dag. Um er að ræða 79% hækkun frá fyrri mánuði og 29% lækkun frá fyrra ári. Ef horft er eftir flokkum námu viðskipti með ríkisbréf 86,5 milljörðum, viðskipti með bankabréf námu 19,3 milljörðum, og viðskipti með íbúðabréf námu 4,2 milljörðum.

Arion banki var einnig umsvifamestur með viðskipti á skuldabréfamarkaði, með 19,2% sem er hærri en ársviðskiptin sem nema 16,7%, Landsbankinn er með 18,2% en 17,1% á árinu og Kviku banki með 16,2% og 15,1% á árinu. Aðalvísitala skuldabréfa hækkaði um 0,3% í ágúst, en óverðtryggða skuldabréfavísitalan lækkaði um 0,4% og sú verðtryggða hækkaði um 0,7%.