Hagnaður samstæðu verkfræðistofunnar Mannvits árið 2014 nam 146,5 milljónum króna. Rekstartekjur samstæðunnar voru 5.151 milljón króna og uxu um 3,5% á milli ára. EBITDA Mannvits á síðasta ári var um 224 milljónir króna.

Handbært fé frá rekstri Mannvits á síðasta ári var 177 milljónir króna. Það er mikill viðsnúningur frá árinu 2013, þegar handbært fé frá rekstri var neikvætt um 431 milljón. Fyrirtækið seldi eignir fyrir 1,2 milljarða króna á síðasta ári og greiddi niður lán fyrir um 746 milljónir. Eignir Mannvits námu 3,4 milljörðum króna í lok síðasta árs og eigin féð 1.029 milljónum króna.

Mannvit átti hlut í ýmsum dótturfélögum um síðustu áramót. Fyrirtækið átti 50% hlut í félaginu Mannvit-Verkís ehf. og 64% hlut í HRV Holding ehf. 309 ársverk voru hjá samstæðunni um síðustu áramót.

Eignarhald Mannvits er dreift. Í lok síðasta árs voru hluthafarnir 106 talsins. 21 hluthafi átti 1,82% hlut, en það eru stærstu eignarhlutirnir í Mannviti.