Hagstofa Íslands gerir ráð fyrir að tekjuafkoma hins opinbera árið 2016 verði jákvæð um 416,8 milljarða króna árið 2016 eða 17,2% af landsframleiðslu. Til samanburðar var afkoman neikvæð um 18,5 milljarða króna árið 2015 eða 0,8% af landsframleiðslu. Þetta kemur fram í frétt Hagstofunnar .

Þar segir: „Þessi góða afkoma skýrist af miklu leyti af 384,3 milljarða króna stöðugleikaframlagi frá slitabúum fallinna fjármálafyrirtækja á fyrsta ársfjórðungi 2016.

Á árinu námu tekjur hins opinbera 1.415 milljörðum króna og jukust um 52% milli ára. Sem hlutfall af landsframleiðslu mældust þær 58% samanborið við 42% árið 2015. Útgjöld hins opinbera námu 998,4 milljarðar króna árið 2016 eða 41,2% af landsframleiðslu samanborið við 42,9% árið 2015.

Peningalegar eiginir hins opinbera námu 51% af landsframleiðslu í lok árs 2016 meðan áætlað að heildarskuldir hins opinbera hafi verið 88%. „Fara þarf aftur til ársins 2007 til að finna lægra skuldahlutfall,“ er tekið fram í fréttinni.