Viðsnúningur hefur orðið á vöruviðskiptajöfnuði milli ára en í apríl voru vöruviðskiptin óhagstæð um 6,3 milljarða króna, meðan þau voru hagstæð um 3,3 milljarða króna í apríl 2015. Samt sem áður lækkaði verðmæti vöruinnflutnings eilítið en vöruskiptahallinn stafar fyrst og fremst af lækkuðu verðmæti íslensks útflutnings.

Lækkar um 40 milljarða milli ára

Er miðað við gengi hvors árs fyrir sig og reiknað út frá fob, það er afhendingu um borð. Voru vörur fluttar út fyrir 47,2 milljarða króna í apríl og inn fyrir 53,5 milljarða króna en fyrstu fjóra mánuði ársins voru fluttar út vörur fyrir 179,8 milljarða en inn fyrir 210,7 milljarða.

Var því halli á vöruviðskiptum sem nam 30,9 milljörðum króna á þessum tíma en á sama tímabili í fyrra voru vöruviðskiptin hagstæð um 8,9 milljarða. Hefur því vöruviðskiptajöfnuðurinn orðið 39,8 milljörðum lakari milli ára.

Vöruútflutningur minnkar milli ára

Verðmæti vöruútflutnings var 18,8% prósentum lægri, eða 41,7 milljörðum króna, fyrstu fjóra mánuði þessa árs miðað við sama tímabil í fyrra. Verðmæti iðnaðarvara lækkaði um 26,3% milli ára, aðallega vegna lægra álverðs, en iðnaðarvörur voru 50,9% alls útflutnings. Útfluttar sjávarafurðir lækkuðu um 12,8% í verðmæti milli ára en þær voru um 43,1% alls vöruútflutnings.

Vöruinnflutningur lækkaði milli ára og var 1,9 milljörðum króna lægri, eða um 0,9%, miðað við þessa sömu fjóra mánuði árið á undan. Dróst aðallega innflutningur á hrávörum, rekstrarvörum og eldsneyti saman, en á móti jókst innflutningur á fjárfestingarvörum og flutningatækjum.