Rekstrarniðurstaða Íbúðarlánasjóðs var jákvæð sem nemur 4.257 milljónum króna samanborið við 1.827 milljóna króna rekstrarafgang árið 2015. Viðsnúningurinn nemur rúmlega tveimur milljörðum króna.

Eiginfjárhlutfall sjóðsins er nú 7,26% samanborið við 5,46% í árslok 2016. Langtímamarkmið sjóðsins er að hlutfallið sé yfir 5%. Eigið fé Íbúðalánasjóðs í lok tímabilsins er 23.528 milljónir króna en það var 19.271 milljónir króna í lok árs 2015.

Hreinar vaxtatekjur ÍLS námu 1.857 milljónum króna samanborið við 1.633 milljónum króna árið áður, sem er aukning þrátt fyrir minnkun lánasafns. „Hagræðing í rekstri, áherslur í sölu fullnustueigna ásamt viðsnúningi vaxtaberandi eigna hafa leitt til bættrar afkomu,“ segir í tilkynningunni.

Vaxtatekjur tímabilsins námu alls 50.790 milljónum króna samanborið við vaxtatekjur að fjárhæð 51.707 milljónum króna fyrir árið 2015. Lækkun tekna skýrist af minnkun lánasafns.

Rekstrarkostnaður sjóðsins á tímabilinu nam 1.735 milljónum króna en þar af voru 100 milljónir einskiptiskostnaður vegna hagræðingaaðgerða. Rekstrarkostnaður lækkar um 12,8% milli ára að frádregnum einskiptiskostnaði þrátt fyrir umtalsverðar hækkanir launa í kjölfar kjarasamninga.

„Afkoma sjóðsins af sölu fullnustueigna var jákvæð á árinu og  skilaði 799 milljónum umfram bókfært virði eignanna auk þess sem sjóðurinn seldi Leigufélagið Klett ehf. og innleysti við það söluhagnað að fjárhæð 1.427 milljónir kr.,“ segir einnig í tilkynningunni.