*

þriðjudagur, 20. nóvember 2018
Innlent 21. júní 2018 18:03

Víðtæk skattsvik á Airbnb

Sveitarfélög verða af hundruðum milljóna vegna óskráðra íbúða sem eru í útleigu í gegnum Airbnb.

Ingvar Haraldsson
Ólafur Heiðar Helgason, hagfræðingur Íbúðalánasjóðs kynnti skýrsluna í gær.
Aðsend mynd

Í nóvember 2017 voru um 60% íbúða í umfangsmikilli útleigu á Airbnb ekki skráð sem atvinnuhúsnæði þrátt fyrir reglur þar um samkvæmt nýútkominni skýrslu hagdeildar Íbúðalánasjóðs. Í skýrslunni er áætlað að sveitarfélög verði árlega af hundruðum milljóna króna, jafnvel yfir milljarði, í formi fasteignagjalda sem ekki séu talin fram vegna Airbnbíbúða. Ríkisstjórnin ákvað fyrr í þessum mánuði að setja 64 milljónir í hert eftirlit með heimagistingu til að takast á við vandann. Með lagabreytingu í upphafi síðasta árs átti að auðvelda skráningu á heimagistingu. Sé útleiga í lengur en í 90 daga á ári eða leigan hærri en tvær milljónir króna skal skrá húsnæðið líkt og um atvinnuhúsnæði sé að ræða. Miðað við skýrsluna eru fjölmargir aðilar sem virt hafa lögin að vettugi.

Hækkað fasteignaverð um allt að 9%

Áhrif Airbnb eru einnig umtalsverð á íbúðamarkaði. Íbúðalánasjóður áætlar að allt að 5-9% af hækkun fasteignaverðs skýrist af útleigu íbúða til ferðamanna í gegnum Airbnb á árunum 2015 til 2017. Hagdeildin áætlar að um 1.500-2.000 íbúðir eða herbergi séu dottin út af hefðbundnum íbúðamarkaði vegna útleigu þeirra á Airbnb. Bent er á í skýrslunni að um 5.500 íbúðir verið byggðar hér á landi á 2014 til 2017. Fyrir hverjar þrjár nýbyggingar hér á landi undanfarin ár hafi um það bil ein íbúð horfið af markaðnum vegna Airbnb. Hins vegar er lögð áhersla á að þörf sé á frekari rannsóknum um orsakasamband milli Airbnb útleigu og húsnæðismarkaðarins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.