Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Landsréttar um að launakrafa Ólafs Páls Einarssonar á hendur þrotabúi tölvufyrirtækisins Azazo hf., væri forgangskrafa en ekki almenn krafa.

Málið kom til eftir að Ólafi Páli Einarssyni var sagt upp fyrirvaralaust 26. október 2016, eftir tæplega árs starf hjá félaginu, og jafnframt felldar niður launagreiðslur til hans frá þeim tíma. Höfðaði Ólafur Páll mál í janúarbyrjun 2016 og krafðist launa út sex mánaða uppsagnarfrests, auk orlofs, orlofsuppbótar, desemberuppbótar og bifreiðastyrks.

Héraðsdómur dæmdi í nóvemberlok sama ár Ólafi Páli í vil og dæmdi Azaz hf. til að greiða honum 5,8 milljónir króna með dráttarvöxtum, auk tæplega milljónar í málskostnað. Áfrýjaði Azazo málinu um miðjan febrúar árið eftir, það er 2017, en bú félagsins var síðan tekið til gjaldþrotaskipta í októberbyrjun sama ár.

Var máli Azazo vísað frá í Hæstarétti í nóvemberlok 2017, þar sem félagið hafði ekki sett tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar, og var því félaginu gert að greiða Ólafi Páli 400 þúsund króna málskostnað.

Höfnuðu kröfunni á ný vegna aldurs

Byggt á þeim dómi fór Ólafur Páll því í framhaldinu fram á að fá tæplega 9 milljóna kröfu samþykkta á þrotabúið sem forgangskröfu, en skiptastjóri hafnaði því í lok desembermánaðar, á þeim forsendum að Ólafur Páll teldist nákominn þrotamanni, og skilyrði um aldur kröfu væru ekki fullnægt.

Í framhaldi af því að ekki tókst að jafna ágreining um málið fór þrotabúið fram á að að Héraðsdómur Reykjaness úrskurðaði um ágreininginn, sem hafnaði því um miðjan janúar á þessu ári að krafa Ólafs Páls nyti forgangs, en Landsréttur komst síðan að gagnstæðri niðurstöðu.

Hæstiréttur samþykkti að taka málið fyrir, og staðfesti úrskurð Landsréttar, og dæmdi Ólafi Páli í vil, og fær hann því kröfu sína viðurkennda sem forgangskröfu í þrotabú Azazo.