Sýningin Sjávarútvegur 2016 / Iceland Fishing Expo 2016 er hafin í Laugardalshöll og henni lýkur á morgun, föstudag.. Sýningin var opnuð formlega  af Gunnari Braga Sveinssyni sjávarútvegsráðherra í gær að viðstöddum forseta Íslands Guðna Th. Jóhannessyni og fleiri gestum. Í opnunarathöfn sýningarinnar voru veittar viðurkenningar til þeirra sem þykja hafa skarað fram úr í greininni að mati nokkurra helstu samtaka í íslenskum sjávarútvegi. Það var Eliza Jean Reid forsetafrú sem afhenti viðurkenningarnar.

Trillukarl ársins

Axel Helgason hlaut viðurkenningu Landsambands Smábátaeiganda sem trillukarl ársins. Hann fullsmíðaði sjálfur bát sinn Sunnu Rós árið 2014 og hóf makrílveiðar það sama ár. Makrílveiðibúnaðinn smíðaði hann sjálfur og er eftirtektarvert hve einfaldur, léttur og afkastamikill búnaðurinn er auk þess sem vel er hugað að öryggismálum um borð. Axel er með aflahæstu makrílbátunum 2016 þrátt fyrir að vera einn um borð. Þá hefur hann einnig stundað grásleppuveiðar s.l. 2 ár með góðum árangri.

Viðurkenning Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi

Fiskvinnslan Íslandssaga á Suðureyri fékk viðurkenningu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi en fyrirtækið hefur verið leiðandi í útflutningi á ferskum fiski frá Vestfjörðum og hefur stuðlað að vexti og viðgangi annarra fyrirtækja í nærumhverfi sínu meðal annars með öflugu samstarfi við ferðaþjónustufyrirtæki á svæðinu. Íslandssaga hefur í samstarfi við önnur fyrirtæki á Suðureyri unnið ötullega að því að skapa fjölbreyttara atvinnulíf á Vestfjörðum og um leið aukið verðmæti sjávarfangs. Þar með hafa skapast auknir möguleikar fyrir fjölskyldur að starfa og vinna ólík störf innan bæjarfélagsins. Óðinn Gestsson framkvæmdastjóri Fiskvinnslunnar Íslandssögu veitti viðurkenningunni viðtöku.

Viðurkenning Sjómannasambands Íslands

Slysavarnaskóli sjómanna hlaut viðurkenningu Sjómannasambands Íslands fyrir fórnfúst, óeigingjarnt og krefjandi starf við slysavarnir, fræðslu og þjálfun íslenska sjómannsins. Slysavarnaskóli sjómanna hefur í rúm 30 ár staðið í fararbroddi þegar kemur að slysavörnum íslenskra sjómanna. Árangurinn er mælanlegur með fækkun slysa til sjós og er það mál manna að það megi að stærstum hluta rekja til hins góða starfs skólans. Hilmar Snorrason skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna veitti viðurkenningunni viðtöku.

Viðurkenning Íslenska sjávarklasans

Einar Lárusson hlaut viðkenningu Íslenska sjávarklasans fyrir framlag til nýsköpunar og aukinnar verðmætasköpunar í íslenskum sjávarútvegi. Einar á langa og merka sögu í nýsköpun tengdri íslenskum matvælaiðnaði og sjávarútvegi. Frá síðustu aldamótum hefur hann tekið þátt í allmörgum verkefnum fyrir saltfiskiðnaðinn á Íslandi. Hann kom að mótum Fisktækniskólans og Codlands í Grindavík og hefur liðsinnt fjölmörgum frumkvöðlum og fyrirtækjum við vöruþrón á Íslandi og erlendis. Einar hefur verið ötull liðsmaður og forystumaður um meiri og betri nýtingu íslenskra auðlinda.

Viðurkenningar Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda

Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda veittu tvær viðurkenningar.  Fiskmarkaður Þórshafnar hlaut viðurkenningu fyrir að skila almennt bestu hráefni til kaupenda. Fiskur sem keyptur er í gegnum útibú Fiskmarkaðar Þórshafnar á Borgarfirði eystra er almennt rétt niður raðaður, frágangur til fyrirmyndar, sem og uppgefin vigt. Karl Sveinsson forstöðumaður útbús Fiskmarkaðsins á Borgarfirði Eystra tók við viðurkenningunni. Þá fær útgerð Saxhamars SH 50 einnig viðurkenningu samtakanna fyrir að skila góðum og ferskum afla bæði á línu og neti. Friðþjófur Sævarsson tók við viðurkenningunni fyri hönd áhafnarinnar.