Ólafur Þór Hauksson hætti sem sérstakur saksóknari um áramótin og tók við nýstofnuðu embætti héraðssaksóknara. Hér er brot úr viðtali við Ólaf í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins:

Nú hefur kostnaður við embætti sérstaks saksóknara verið í kringum milljarð á ári, en sakfellingar hafa kannski ekki verið mjög margar. Hvernig meturðu árangur embættisins, sérstaklega í samhengi við þennan kostnað?

„Embættinu var ætlað tvennt. Það var annars vegar að rannsaka og hins vegar að saksækja. Það er ekki þannig að allar rannsóknir leiði til ákæru og sakfellingar. Síðan er það líka spurningin hvernig þú telur mál. Eitt mál hér sem telur upp á 22.000 blaðsíður í gögnum sem eru lögð fyrir dóm er kannski á móts við hundrað og jafnvel þúsund mál í öðrum brotaflokkum. Þannig að fyrst og fremst þarf náttúrulega að meta umfang starfseminnar og bera það síðan saman.

Við megum því ekki setja tilkostnaðinn í samhengi við fjölda sakfellinga eða dæmdra ára eða eitthvað slíkt. Þetta er verkefni sem ákveðið var að setja fjármagn í og því fjármagni sem ætlað var í þetta, var ráðstafað í þetta tvennt, rannsóknir og saksókn, og áætlanirnar um það stóðust. Það var ekki þannig að menn færu af stað með áætlun sem ekki stóðst, heldur fóru menn af stað með áætlun um að setja þetta mikið fjármagn i verkefnið. Það var gert.“

Gengurðu ánægður frá verki?

„Já, ég myndi segja það. Ég tel að embættið hafi gert það sem því var ætlað að gera.“

Embætti sérstaks saksóknara hefur orðið fyrir margvíslegri gagnrýni. Eitt af því sem helst hefur verið gagnrýnt var þegar í ljós kom að embættið hafði hlerað samtöl verjenda og sakborninga. Voru hleranir á þessum tilteknu samtölum réttlætanlegar?

„Ég held að þú sért að misskilja þetta. Það er þannig að það er tekinn úrskurður um hlustanir. Þegar símanúmer eru hlustuð þá  tekur það öll símtöl, hvort sem viðkomandi er að tala við samstarfsmann sinn, lögmann sinn, eiginkonu sína – allt dettur þetta inn í hlustun. Lögin segja síðan að það eigi að eyða tilteknum símtölum milli verjanda og sakbornings. Það var sú lína sem við unnum eftir, og áttum að vinna eftir. Í einhverjum tilvikum var þeirri skyldu ekki nægilega vel sinnt, að eyða símtölum. Það er eitthvað sem við urðum síðan að lagfæra. Þannig að það að fara út í þessa hlustun er ekki gagngert til þess að hlusta á þessi símtöl. Þannig er það.“

En þú viðurkennir sem sagt að mistök hafi verið gerð í ákveðnum tilvikum?

„Við höfum gert það, já. Og það hefur verið gerð grein fyrir því í þeim dómsmálum sem um þetta hefur verið fjallað, með hvaða hætti þær aðstæður komu upp.“

Ítarlegt viðtal við Ólaf er í Áramótum sem kom út 30. desember síðastliðinn. Áskrifendur Viðskiptablaðsins geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .