Víglundur Þorsteinsson hefur sent þingismönnum bréf vegna umfjöllunar sinnar um það hvernig hann telur neyðarlögin hafa verið sniðgengin af fyrri ríkisstjórn á árinu 2009. Í bréfinu fjallar hann áfram um þau meintu lögbrot og afleiðingar þeirra sem hann hefur áður sent til Alþingis. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Víglundi.

Í bréfinu heldur Víglundur því fram að umrædd gögn séu svo afdráttarlaus að Alþingi sé sá kostur einn fær að fela ríkissaksóknara meðferð málsins til þess að rannsaka það til hlítar.

Víglundur heldur því fram að fyrrverandi ríkisstjórn hafi heimildarlaust gripið inn í lögmælt ferli neyðarlaganna um stofnun hinna nýju ríkisbanka og komið í veg fyrir að Fjármálaeftirlitið fengi lokið sínum ákvörðunum. Ríkisstjórnin hafi hafið samninga við fulltrúa erlendra kröfuhafa og án heimilda hafi hún afhent kröfuhöfunum tvo ríkisbanka og stjórnunarrétt yfir þeim þriðja.

Samhliða bréfi sínu til þingmanna hefur Víglundur sent svar sitt við skýrslu Brynjars Níelssonar um hin meintu lögbrot. Telur hann niðurstöður skýrslunnar ganga gegn grundvelli lögmætisreglu, og telur hann a.m.k. tvo ráðherra hafa verið algjörlega heimildarlausa við það að sniðganga neyðarlögin í samningum við erlenda kröfuhafa.