Velta á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu dróst saman á milli vikna í liðinni viku. Þannig nam velta í vikunni 1.353 milljónum króna samkvæmt tölum frá Fasteignaskrá Íslands, samanborið við 1.596 milljóna króna veltu í vikunni á undan og dróst því saman um 15% á milli vikna.

Fjögurra vikna meðalvelta lækkar á milli vikna, aðra vikuna í röð, og nemur nú 1.406 milljónum króna, samanborið við 1.416 milljónir í vikunni á undan. Þá hefur fjögurra vikna meðalvelta lækkað um 47 milljónir króna á fjórum vikum.

Til að sjá betur heildarmyndina af fasteignamarkaðir má sjá þróun fjögurra vikna meðalveltu á milli ára á myndinni hér að ofan. Þar sést að fjögurra vikna meðalvelta hefur nú hækkað um 16% milli ára, sem er minnsta hækkun frá því í byrjun nóvember þegar hún hækkaði fyrst á milli ára, en á sama tíma í fyrra hafði fjögurra vikna meðalvelta lækkað um 61% milli ára.

Tólf vikna meðalvelta lækkar einnig á milli vikna, eða um 13 milljónir króna, og nemur 1.259 milljónum króna. Tólf vikna meðalvelta hefur nú ekki verið lægri frá því um miðjan nóvember sl. en um miðjan desember hafði 12 vikna meðalvelta ekki verið hærri í 12 mánuði þegar hún nam 2.055 milljónum króna.

Þá má skoða meðalveltu á viku síðustu 12 mánuði. Hún er nú 1.424 milljónir króna. Fyrir ári síðan nam 12 mánaða meðalveltan 1.686 milljónum króna og hefur því dregist saman um 16% á milli ára. Þá má geta þess að um miðjan janúar í fyrra fór 12 mánaða meðalvelta í fyrsta skipti undir 2 milljarða frá því febrúar 2003.

Í síðustu viku:

Alls var 51 kaupsamning þinglýst í vikunni, samanborið við 52 samninga í vikunni þar á undan. Alls var 39 samningum þinglýst að meðaltali á síðasta ári og 44 samningum að meðaltali á viku það sem af er þessu ári.

Meðalupphæð á hvern samning lækkar á milli vikna og nam í vikunni 26,5 milljónum króna, samanborið við 30,7 milljónir króna í vikunni á undan. Meðalupphæð á hvern samning á síðasta ári var 34,6 milljónir króna en það sem af nemur þessu ári nemur meðalupphæðin 30,8  milljónum króna.