Verslunarmannahelgin virðist hafa farið vel með íslenska fjárfesta. Eftir miklar lækkanir í síðustu viku, hækkaði úrvalsvísitalan um 1,42%. Hún hefur engu að síður lækkað um 8,60% frá áramótum.

Velta dagsins á aðalmarkaði hlutabréfa var rúmlega 827 milljónir króna. Icelandair hækkaði mest, en veltan nam rúmum 219 milljónum. Gengi bréfanna hækkaði um 2,37% og fæst hver hlutur nú á 28,10 krónur.

Marel hækkaði um 1,59% og er gengi bréfanna nú 256 krónur. HB Grandi hækkaði um 1,49% og stendur nú í 30,70 krónum á hlut. Hver hlutur í símanum er nú skráður á 3,14 krónur en bréfin hækkuðu um 1,46% í dag.

Bréf utan vísitölunnar hækkuðu einnig talsvert. Sjóvá hækkaði til að mynda um 2,89% í 79 milljón króna viðskiptum. Fjarskipti hækkuðu um 1,28% í 72 milljón króna viðskiptum. Fasteignafyrirtækin Reginn og Eik hækkuðu um annars vegar 1,13% og hins vegar 1,05%.

Aðalvísitala skuldabréfa lækkaði um 0,08% en heildar velta á skuldabréfamarkaði nam rúmum 10 milljörðum. Skuldabréfavísitala Gamma lækkaði einnig um 0,08%. Markaðsvísitala sjóðstýringarfélagsins hækkaði um 0,35%.