Hópur íslenskra einkafjárfesta gerði Kaupþingi kauptilboð í 1,46% eignarhlut í Arion banka. Hópurinn var settur saman að frumkvæði Kviku fjárfestingabanka. Stjórn Kaupþings láðist að svara tilboðinu áður en tilboðsfrestur rann út um miðnætti á sunnudag. Tilboðið í hlutinn hljómaði upp á 2,2 milljarða að því er kemur fram í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti, eða því sem jafngildir gengingu rúmlega 0,8 miðað við bókfært eigið fé Arion banka í lok þriðja ársfjórðungs 2016.

Kaupþing á 87 prósenta hlut í Arion banka og vildi ekki tjá sig um málið. Markaðurinn hefur undir höndum tölvupóst sem Kvika sendi á fjárfestahópinn þar sem kemur fram að stjórn Kaupþings hefði áhuga á því að fá tilboð og fagnaði frumkvæði Kviku. Hópur einkafjárfestanna samanstendur af 20 einkafjárfestum sem eru í viðskiptum við Kviku banka. Einnig kemur fram að talsverðrar óánægju gætir í röðum fjárfestahópsins um að tilboðinu hafi ekki verið tekið og er lagt líkum að því að tilboðinu hafi ekki verið svarað þar sem að það gæti verið pólitískt viðkvæmt að selja útvöldum einkafjárfestum hlut í bankanum í aðdraganda hlutafjárútboðs Arion banka.

Áður hefur verið greint frá því að þrotabú Kaupþings hafi ráðið sænska fjárfestingabankann Carnegie til að sjá um skráningu Arion banka í Svíþjóð. Frá því var greint í frétt Reuters. Í Morgunblaðinu í gær var greint frá því að Arion banki hafi upp á síðkastið fundað með fulltrúum lífeyrissjóðanna og að stefnt væri að tvöfaldri skráningu bankans, annars vegar í Stokkhólmi og hins vegar í Reykjavík.

Í drögum að uppfærðri eigendastefnu fyrir fjármálafyrirtæki kemur fram að stefnt sé að því að selja alla eignarhluti ríkisins í Arion banka þegar hagfelld og æskileg skilyrði séu fyrir hendi.