Í síðustu viku birti Viðskiptablaðið viðtal við umboðsmann ungversku tannlæknastofunnar Kreativ Dental hér á landi sem hyggst aðstoða Íslendinga við að sækja sér tannlæknaþjónustu í Ungverjalandi.Í viðtalinu kom m.a. fram að stofan væri stór samkeppnisaðili í löndum eins og Noregi og Bretlandi og að hann búist við því að þjónustan komi til með að gjörbreyta hinum íslenska tannlæknamarkaði. Íslenskir tannlæknar segja verðin og yfirlýsingar um gæði stofunnar varla standast skoðun og segjast hafa slæma upplifun af slíkum ferðatannlækningum.

Fullyrðing um verð stenst ekki skoðun

Í fyrrgreindu viðtali sagði umboðsmaður Kreativ Dental að íslenskir viðskiptavinir hefðu tjáð honum að aðgerðirnar væru allt að 50-70% ódýrari en þær sem framkvæmdar væru hér á landi. Bjarni E. Pjetursson, deildarforseti Tannlæknadeildar Háskóla Íslands, segir hér um að ræða fullyrðingu sem sé vafasamt að standist skoðun. „Við höfum fengið nokkrar kostnaðaráætlanir frá ferðatannlæknastofum og þegar notuð voru viðurkennd efni t.d. í beinuppbyggingar var verðið svipað og á Íslandi. Verðið getur verið lægra vegna þess að verið er að nota efni, t.d. í tannplanta og beinuppbyggingar, sem ekki hafa verið rannsökuð,“ segir Bjarni. Þá bendir hann á, líkt og Ásta, að rannsóknir sýni að yfirmeðhöndlun sé mjög útbreidd í ferðatannlækningum og því verði heildarkostnaður við meðferðina þannig oft meiri þegar upp er staðið.

Vildu senda sjúklinga til Íslands

„Árið 2010, þegar krónan var veikari en í dag, hafði bresk umboðsskrifstofa fyrir ferðatannlækningar samband við okkur með það fyrir augum að senda sjúklinga til Íslands. Við skoðuðum málið í smáatriðum og reyndist verð hjá okkur vera samkeppnisfært við verðið í Austur-Evrópu. Það sem hins vegar stoppaði okkur í því að meðhöndla sjúklinga sem dvelja einungis í stuttan tíma á Íslandi, var að fyrir flestar flóknari meðferðir þarf ákveðna undirbúningsvinnu til að tryggja langtímaendingu. Slíka undirbúningsvinnu er ekki hægt að vinna faglega á örfáum dögum,“ segir Bjarni.

Hann bendir jafnframt á að í dag séu til um 1.800 tannplantakerfi í heiminum, en þar af séu aðeins um 20 sem styðjist við rannsóknir. „Sem betur fer hafa tannlæknar á Íslandi verið að nota viðurkenndar vörur. Ef sjúklingur fær tannplanta erlendis sem ekki er verið að nota á Íslandi, eigum við enga möguleika á því að hjálpa viðkomandi ef vandamál koma upp þar sem hvert kerfi hefur sín verkfæri og sínar útfærslur,“ segir Bjarni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.