Á fyrri hluta ársins 2017 keypti Seðlabanki Íslands gjaldeyri af viðskiptavökum á gjaldeyrismarkaði fyrir um 75,2 milljarða króna og seldi fyrir 5,3 milljarða króna. Hrein kaup námu því 69,9 milljarða króna á fyrri hluta ársins. Viðskipti Seðlabankans námu 32% af veltu á gjaldeyrismarkaði á fyrri hluta þessa árs, en á sama tímabili árið 2016 höfðu kaupin numið um 57% af veltu. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu peningastefnunefndar til Alþingis , þar sem fjallað er um störf nefndarinnar á fyrri hluta ársins 2017.

Þar kemur einnig fram að í mars hafi Seðlabankinn selt gjaldeyri á gjaldeyrismarkaði í fyrsta sinn frá því í nóvember 2014 og síðan á ný í júnímánuði - eins og Viðskiptablaðið fjallaði um. Í skýrslu Seðlabankans segir að í öllum tilfellum hafi salan þann tilgang að stöðva keðjuverkun á markaðnum, það er miklu veikingu þar sem sama lága upphæðin gekk á milli markaðsaðila eins og „heit kartafla“.

Ekki lengur þörf á uppbyggingu forða

Einnig er tekið fram í skýrslunni að í aðdraganda losunar fjármagshafta hafið verið nauðsynlegt að byggja upp gjaldeyrisforða og draga úr hættu á tímabundnu ofrisi krónunnar. Í kjölfars mikilvægs áfanga við losun hafta í byrjun þessa árs, taldi peningastefnunefndin á febrúarfundi sínum að ekki lengur væri þörf fyrir frekari uppbyggingu forða og að hætta á tímabundnu ofrisi krónunnar áður en full losun fjármagnshafta á sér stað hafi minnkað.

14. mars 2017 tóku gildi nýjar reglur Seðlabankans um gjaldeyrismál en með þeim reglum voru takmarkanir á fjármagnshreyfingar milli landa og gjaldeyrisviðskipti að mestu felldar niður. Í kjölfarið ítrekaði peningastefnunefndin að markmið inngripastefnunnar væri að draga úr skammtímasveiflum og að í því fælist að bankinn myndi ekki eingöngu kaupa gjaldeyri heldur myndi hann einnig selja hann ef aðstæður kölluðu á slíkt.

Skammtímasveiflur hafa aukist

Peningastefnunefnd tekur jafnframt fram í skýrslu sinni að á fyrri hluta ársins 2017 var flæði á gjaldeyrismarkaði jafnara í báðar áttir en á seinni hluta síðasta árs. Það dró talsvert úr styrkingu krónunnar og í júnímánuði lækkaði krónan nokkuð eins og Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um.

Skammtímasveiflurnar hafa þó aukist og að mati peningastefnunefndar má rekja þær til aukinna fjármagnshreyfinga og aukinna væntinga um að krónan sé nær hátoppi. Eins og bent er á hér að ofan hefur einnig dregið talsvert úr gjaldeyrisviðskiptum Seðlabanka Íslands.