Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS) hefur ákveðið að veita þeim Vilhjálmi Árnasyni og Viðskiptaráði Íslands, VÍ, Frelsisverðlaun Kjartans Gunnarssonar 2015.

Fram kemur í tilkynningu að Vilhjálmi Árnasyni eru veitt verðlaunin fyrir baráttu sína gegn ríkiseinokun á áfengissölu. Eitt fyrsta verk Vilhjálms þegar hann tók sæti á Alþingi árið 2013 var að leggja fram frumvarp um frjálsa sölu áfengis á Íslandi.

„Í kjölfar þess tók við löng og ströng málefnabarátta þar sem hann kvikaði hvergi í rökfestu sinni fyrir auknu viðskipta- og einstaklingsfrelsi. Lagði hann áherslu á að landsmönnum væri gert kleift að kaupa og selja löglega vöru á frjálsum markaði, án allrar aðkomu ríkisvaldsins,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir að Viðskiptaráð hafi frá stofnun árið 1917 verið sameiginlegur vettvangur íslensks viðskiptalífs þar sem trú á markaðsbúskap og athafnafrelsi hefur verið í hávegum höfð. Undanfarin ár hafi ráðið lagt fram málefnalegar og vel ígrundaðar tillögur sem hafa hlotið verðskuldaða athygli og reynst gott innlegg í samfélagsumræðuna. Auk þess hafi það fjallað ötullega um lágmörkun opinberra afskipta, hagfellt skattkerfi og ókosti þess að ríkið standi í samkeppnisrekstri við einkaðila t.d. með rekstri fríhafnarverslunar og orkufyrirtækja.

SUS hefur afhent verðlaunin á hverju ári frá árinu 2007. Þau hljóta einn einstaklingur og einn lögaðili, sem að mati stjórnar SUS hafa aukið veg frelsishugsjónarinnar á Íslandi.

Fyrri verðlaunahafar:

2007: Andri Snær Magnason og Andríki

2008: Margrét Pála Ólafsdóttir og Viðskiptaráð Íslands

2009: Davíð Scheving Thorsteinsson og Hugmyndaráðuneytið

2010: Brynjar Nielsson og InDefence

2011: Ragnar Árnason og Advice

2012: Hannes Hólmsteinn Gissurarson og AMX

2013: Gunnlaugur Jónsson og Samtökin '78

2014: Pawel Bartoszek og Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt