„Mér fannst óþarfi af honum að rífa góða vinnu þessa stóra hóps niður. Þetta hefur kostað flokkinn mikið,“ segir Vilhjálmur Egilsson, sem tekur við sem rektor Háskólans á Bifröst í sumar. „Hann“ er Davíð Oddsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, þá Seðlabankastjóri, sem gagnrýndi Vilhjálm harðlega á landsfundi flokksins í mars árið 2009.

Vilhjálmur hafði leitt vinnu endurreisnarnefndar flokksins að beiðni Geirs H. Haarde, þá formanns flokksins, og ritstýrt svokallaðri endurreisnarskýrslu sem tekin var til umfjöllunar á landsfundinum. Davíð gagnrýndi skýrsluna og beindi orðum sínum sérstaklega að Vilhjálmi eins og frægt er. Vilhjálmur segir að Davíð hafi orðið sér til skammar.

„Ég hafði um nokkurt skeið verið mjög gagnrýninn á vaxtastefnu Seðlabankans og ég tel að hann hafi tekið þá gagnrýni of persónulega,“ segir Vilhjálmur. „Það sem stjórnaði ferðinni var þjóðhagslíkan Seðlabankans. Ég var mjög ósáttur við það líkan enda taldi ég, og tel enn, að það sé mjög ófullkomið. Mér fannst Davíð ganga allt of langt í því að gerast talsmaður þessa þjóðhagslíkans. Hann síðan velur á landsfundinum að láta þessa óvild út í mig bitna á flokknum.“

„Endurreisnarskýrslan var ekki eitthvað sem ég smíðaði sjálfur heldur sá ég um að ritstýra henni og stýra vinnunni. Það voru á annað hundrað manns sem komu að þessu, sátu hvern laugardagsmorgun á fætur öðrum í margar vikur við að vinna hana. Mitt hlutverk var að hvetja fólk áfram í þeirri vinnu og sjá um að safna þessu saman í skýrslu í lokin. Ég lagði áherslu á að enginn mætti fara frá þessu starfi án þess að vera búinn að segja allt sem viðkomandi vildi segja. Það tókst og úr varð góð skýrsla, enda var góð stemning í vinnunni. Davíð hafði fullt leyfi til þess að skammast út í mig persónulega og segja það sem hann taldi sig þurfa að segja við mig eða um mig. Ég gat alveg tekið því og svarað eins og ástæða var til. En mér fannst óþarfi af honum að rífa góða vinnu þessa stóra hóps niður. Þetta hefur kostað flokkinn mikið.“

Ítarlega er rætt við Vilhjálm í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.