*

sunnudagur, 21. apríl 2019
Innlent 10. október 2018 17:42

Vilja 425.000 króna lágmarkslaun

Starfsgreinasambandið hefur sent frá sér kröfugerðir. Í þeim kemur m.a. fram að Sambandið fari fram á umtalsverða hækkun á lægstu launum.

Ritstjórn
Samninganefndarfundur Starfsgreinasambands Íslands fyrr í dag.
Aðsend mynd

Starfsgreinasambandið hefur sent frá sér kröfugerðir sem samþykktar voru á samninganefndarfundi sambandsins fyrr í dag. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu. Kröfugerðirnar snúa annars vegar að stjórnvöldum og hins vegar að atvinnurekendum og eru sagðar vera forsendur þess að kjarasamningar verði undirritaðir.

Í þeim kemur meðal annars fram að Sambandið fari fram á að lágmarkslaun verði hækkuð upp í 425.000 krónur í lok samningstímans að því gefnu að ekki komi til umtalsverðra skattkerfisbreytingar á lægstu launin. 

Einnig kemur fram að forsenduákvæði kjarasamnings verði að ójöfnuður í samfélaginu aukist ekki á samningstímanum. 

„Markmið ákvæðisins er að tryggja að launahækkanir til láglaunafólks skili sér án þess að stigmagnast upp allan launastigann. Heimilt skal að segja upp samningi verði um aukningu ójöfnuðar að ræða. Til að óvissa um túlkun og áhrif ákvæðisins verði sem minnst skal sæst á aðferð við að mæla ójöfnuð með hlutlægum og áreiðanlegum hætti, sem Hagstofa Íslands annist," segir í kröfugerðinni.

Þá fer Sambandið fram á að sett verði ákvæði í samninginn sem takmarka heimildir atvinnurekanda til að gera húsaleigu að hluta af ráðningarkjörum. 

„Heimilað skal eftirlit með slíkum ráðningarkjörum. Húsaleiga skal ekki nema meira en tilteknu hlutfalli af heildarlaunum á mánaðargrundvelli. Gerð verði krafa um að húsaleiga sé ekki rukkuð nema samkvæmt þinglýstum húsaleigusamningi, sé í samræmi við eðlilegt leiguverð og að umsamin upphæð húsaleigu sé þá hluti af ráðningarsamningi sem stéttarfélagi sé heimilt að skoða."

Sambandið krefst þess einnig að vinnustaðalýðræði verði innleitt sem og að trúnaðarmenn njóti aukins svigrúms til að sinna sínu félagslega starfi á vinnutíma. 

„Heilsuvernd skal efld með því að atvinnurekendur greiði styrki til heilsueflingar og gefi starfsfólki færi á árlegri læknisskoðun á næstu heilsugæslustöð á vinnutíma án launaskerðingar. Atvinnusjúkdómar skulu viðurkenndir með skýrari hætti en nú er."

Í kröfugerð Sambandsins gagnvart stjórnvöldum er meðal annars farið fram á skattalækkun á lægstu laun, þjóðarátak í húsnæðismálum, hækkun barnabóta, afnám verðtryggingar og lengingu fæðingarorlofs. 

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim