Kína gaf út sína fyrstu norðurslóðastefnu í byrjun þessa árs eftir margra ára undirbúningsvinnu. Stefnan kemur í kjölfar þess að Kína varð áheyrnaraðili að Norðurskautsráðinu árið 2013 og kynnti norðurslóðavídd undir „belti og braut“ framtakinu í júní árið 2017. Belti og braut er ætlað að tengja Kína á skilvirkari hátt við umheiminn með innviðaframkvæmdum, en með framtakinu freista Kínverjar þess að auka umsvif sín og áhrif á alþjóðavísu.

Um það leyti sem kínversk stjórnvöld kynntu norðurslóðavídd framtaksins skrifaði Zhang Weidong, þáverandi sendiherra Kína á Íslandi, grein í Morgunblaðið. Af henni að dæma litu ráðamenn í Kína á Ísland sem hluta af Silkileiðinni um norðurslóðir, en Zhang taldi að innan ramma beltis og brautar væri mikið svigrúm til að efla samvinnu Kína og Íslands.

Samkvæmt svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Viðskiptablaðsins hafa kínversk stjórnvöld lýst áhuga á að undirrita samkomulag við Ísland um samstarf í tengslum við belti og braut. Íslensk stjórnvöld hafa þó ekki mótað sér afstöðu til þess. Ekkert Norðurlandanna hefur skrifað undir slíkt samkomulag við Kína en Finnar hafa tekið frumkvæði að því með lestartengingu til Kína.

Jin Zhijian, sendiherra Kína á Íslandi, sagði í hátíðarræðu í febrúar síðastliðnum í tengslum við kínverska nýárið að með samstarfssamningi gætu íslensk og kínversk stjórnvöld aukið samstarf á sviði landbúnaðar og sjávarfangs, fólksflutninga og innviðaframkvæmda í flugstarfsemi, fjarskiptatækni og grænnar orku.

Sjá einnig: Risaverkefni aldarinnar

Aukin viðskipti Íslands og Kína

Utanríkisviðskipti Íslands og Kína hafa aukist mikið undanfarin ár, en Kína er helsta viðskiptaland Íslands í Asíu.

Frá aldamótum hefur útflutningur Íslands til Kína rúmlega ellefufaldast, úr milljarði króna í 10,3 milljarða. Á sama tímabili hefur hlutur þess í heildarútflutningi Íslands aukist úr 0,6% í 2%. Innflutningur frá Kína hefur þrettánfaldast, úr fjórum milljörðum í 51,4 milljarða, og hlutur innflutnings frá Kína aukist úr 2% af heildarinnflutningi Íslands í tæp 7%. Ísland og Kína undirrituðu fríverslunarsamning árið 2013 og hafa viðskipti landanna tveggja aukist síðan þá. Ísland er með vöruskiptahalla við Kína líkt og flest önnur ríki, og nam hallinn 41 milljarði króna á síðasta ári.

Langstærsti hluti útflutnings Íslands til Kína eru sjávarafurðir, en Íslendingar flytja inn unnar vörur frá Kína á borð við húsgögn, fatnað og skó, vélar og samgöngutæki, sem og framleiðsluvörur á borð við járn, málma og kemísk efni.

Kínverskum ferðamönnum hefur einnig fjölgað mikið hér á landi. Árið 2010, þegar ferðaþjónustan fór á flug, sóttu rúmlega fimm þúsund Kínverjar landið heim. Í fyrra voru þeir 86 þúsund, eða 4% af ferðamannafjöldanum og sjötti stærsti þjóðernishópurinn.

Ísland var fyrst evrópskra ríkja til að undirrita fríverslunarsamning við Kína. Jafnframt er Ísland eina ríkið á norðurslóðum með fríverslunarsamning við Kína og rammasamning um norðurslóðasamstarf.

Vofa Nubos og sjálfstæðisbaráttan

Aukinn áhugi á Kínverja á Íslandi eftir hrun hefur þó vakið grunsemdir margra sem tortryggja erlend stórveldi sem geti ásælst auðlindir landsins – landrými, fiskinn og orkuna.

Má þar nefna áform kínverska auðmannsins Huang Nubo um landakaup, sem runnu út í sandinn, og framkvæmdir Kínverja á norðurljósarannsóknarstöð á Kárhóli í Reykjadal. Í skýrslu Alþjóðamálastofnunar frá árinu 2015 um viðhorf Íslendinga til vaxandi samskipta Íslands og Kína, kom fram að efnahagslegt samstarf við Kína umfram utanríkisviðskipti væri litið hornauga og að sterk andstaða væri við fjárfestingar Kínverja hér á landi.

Í þessu samhengi hefur Ásgeir Jónsson, dósent við hagfræðideild Háskóla Íslands, varað við að Íslendingar taki sjálfstæði landsins sem sjálfsögðum hlut, það sé eitthvað sem verði að vernda. Í aldanna rás hafi Íslendingar barist við stærri ríki um yfirráð yfir auðlindunum á og við Ísland og það hafi sett mark sitt á þjóðina.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .