Landssamtök lífeyrissjóða hafa lagt til við fjármálaráðherra að lögum um starfsemi lífeyrissjóða verði breytt, en í tillögum þeirra er meðal annars farið fram á rýmkaðar heimildir til fjárfestingar í óskráðum hlutabréfum. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.

Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, segir í samtali við Viðskiptablaðið heildarendurskoðun á lífeyrissjóðalögunum hafa farið fram innan nefndar á vegum samtakanna síðan síðasta haust. Tillögurnar hafi verið kynntar fyrir fulltrúum allra aðildarsjóða en þær liggja nú hjá fjármálaráðuneytinu. "Við höfum óskað eftir að sett verði á stofn samráðsnefnd í ráðuneytinu til að fara yfir þessi mál og gera lagabreytingatillögur sem nái fram að ganga á vorþingi."

Raddir hafa heyrst í íslensku viðskiptalífi um nauðsyn þess að rýmka fjárfestingaheimildir lífeyrissjóða í ljósi örs vaxtar fjármálafyrirtækja, nú síðast frá Sigurði Einarssyni, forstjóra Kaupþings, sem lýsti þeirri skoðun í helgarviðtali Viðskiptablaðsins að lífeyrissjóðir ættu að geta bundið meira en 10% fjárfestinga sinna í einu og sama fyrirtæki. Sama kom fram í viðtali Viðskiptablaðsins fyrr í sumar við Víglund Þorsteinsson, fyrrum stjórnarformann Lífeyrissjóðs verslunarmanna.

"Aðstæður í íslensku viðskiptalífi hafa breyst," segir Hrafn. "Lífeyrissjóðir hafa ekki rekið sig upp undir þessi fjárfestingamörk af því að þeir hafi sjálfir fjárfest um of, heldur af því að fyrirtækin sem þeir fjárfestu í stækkuðu svo gríðarlega. Það er bagalegt að sjóðirnir hafi neyðst til að selja frá sér eignir og sleppa þar með hendinni af góðri fjárfestingu. Við tökum undir að þessu hámarki á að breyta," segir Hrafn.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.