Eigendur veitingahússins Vitans í Sandgerði vilja koma upp aðstöðu til þess að þyrlur geti lent við veitingastaðinn með efnaða matargesti. Óskað hefur verið eftir leyfi til að þyrlur fái að lenda á tilteknu svæði í bænum. Víkurféttir greina frá.

„Það kom fyrirspurn frá ferðaþjónustufyrirtæki um hvort hægt væri að lenda þyrlu hérna,“ er haft eftir Stefáni Sigurðssyni, eiganda Vitans, í frétt Víkurfétta. „Á föstudaginn komu 80 manns sem komið höfðu með einkaflugvél. Þau ætluðu að vera á landinu í þrjá daga og byrjuðu á því að koma til okkar. Síðan héldu þeir áfram í Bláa Lónið og eitthvað,“ segir Stefán.

Samkvæmt Óla Þór Ólafssyni, starfandi bæjarstjóra í Sandgerði, hefur ferðaþjónastan í bænum verið að byggjast upp og segir hann tjaldstæðið mikið notað. Erindi vegna málsins var sent til Samgöngustofu fyrir tveimur vikum og er nú beðið svara.