Guðjón Bragason, sviðsstjóri lögfræði- og velferðarsviðs hjá Sambandi Íslenskra sveitarfélaga, vill að félagi um borgarlínu verði heimilað með lögum að taka land undir línuna eignarnámi. Vísar hann í 50. grein skipulagslaga, að því er segir í Morgunblaðinu, þar sem sveitarstjórnir geta fengið heimild til eignarnáms.

„Ráðherra getur að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar veitt sveitarstjórn heimild til að taka eignarnámi landsvæði, fasteignir, hluta fasteigna og efnisnámur o.s.frv., ef nauðsyn ber til vegna áætlaðrar þróunar sveitarfélagsins samkvæmt staðfestu aðalskipulagi,“ segir í lögunum, en Guðjón vill að félag á vegum sveitarfélaganna geti fengið heimildina.

„Ef sveitarfélag væri ekki framkvæmdaaðili heldur sérstakt félag um borgarlínu er þetta spurning um skilvirkni,“ segir Guðjón. „Að hvert sveitarfélag þurfi ekki að fara í sérstakt eignarnámsmál út af einhverjum eignum, heldur væri það félag sem gæti gert það á grundvelli sérstakrar lagaheimildar.“